Um orlofsdvöl eldri borgara á Löngumýri
Hóparnir eru ýmist 6 eða 7 dagar. Dagskráin er nokkuð fastmótuð en hver dagur hefur samt sem áður sín sérkenni. Öll þátttaka í dagskrá er valfrjáls.
Boðið er upp á gönguferð á hverjum degi, einnig létta stólaleikfimi.
Kvöldvökur, söngur og gleði eru daglegt brauð, svo er oft boðið upp á spil, bingó, púsluspil og aðra skemmtun. Kvölds og morgna er boðið upp á stutta samveru í kapellu.
Einn daginn er farið í menningarferð um héraðið.
Rútan sem ekur okkur er með lyftu!
Verð
Í verðinu er allt innifalið, rútuferðir, gisting og fæði ásamt menningarferðinni. Gestir þurfa sjálfir að sjá um sig í mat á leið til og frá Löngumýri.
Skráningargjald, 10.000 kr, er innheimt með sérstakri kröfu í netbanka. Gjaldið er óafturkræft og dregst frá heildarverði. Ekki er innheimt skráningargjald fyrir að vera á biðlista.
Um svæðið
Langamýri er fræðslusetur þjóðkirkjunnar. Það stendur á flatanum neðan við Varmahlíð í Skagafirði. Þar var áður húsmæðraskóli. Húsnæðið hentar mjög vel fyrir starfsemi eins og orlofsbúðir fyrir eldra fólk enda er nánast allt á sömu hæð. Fáein þrep eru niður í setustofuna og tvö herbergjanna eru á efri hæð en annars er allt á einu og sama gólfinu.
Gist er í eins og tveggja manna herbergjum, eitt þriggja manna herbergi er á staðnum. Salerni eru sameiginleg en mjög mörg og nálægt hverju herbergi
Í rúmgóðum matsalnum er borðað fimm sinnum á dag og í eldhúsinu starfar dásamlegt starfsfólk úr héraðinu.
Innangengt er í kapellu og þar er boðið upp á stundir kvölds og morgna. Gist er í uppbúnum rúmum og handklæði fylgja.
Sundlaug og heitur pottur eru á staðnum.
Skráning
Skráning fer fram á vefslóðinni https://langamyri.skramur.is/input.php?id=1. Skráning hefst oftast í mars og verður auglýst þegar nær dregur
Nauðsynlegt er að skrá allar viðeigandi upplýsingar inn í skráningarformið. Ef verið er að skrá fleiri en einn einstakling (t.d. hjón) þarf að fylla út skráningarform fyrir hvern aðila.