Fundur héraðsnefndar 9. Júní 2023

Full mæting héraðsnefndar.

 1. Sr. Pétur flutti bæn og las úr Davíðssálmum.
 2. Prófastur fór yfir fundargerð síðasta fundar og hún var samþykkt.
 3. Prófastur var búin að fá tilboð frá tveimur fyrirtækjum í umsjón með bókhaldi o.fl. fyrir prófastsdæmið eins og samþykkt var að fela henni að gera á síðasta fundi. Tilboðin er nokkuð sambærileg og voru rædd frá ýmsum hliðum. Prófasti var falið að halda áfram að skoða þetta og heyra betur í fólki frá báðum fyrirtækjum.
 4. Önnur mál.
 5. Prófastur kallaði eftir samþykki fyrir að fá að kalla til fræðslu inn á fundi presta á komandi vetri. Héraðsnefnd samþykkti það.

Fundi slitið og ekki fleira rætt.

Fundur héraðsfundar 17. maí í Breiðholtskirkju

1. fundur starfsveturinn 2023-2024

Full mæting héraðsnefndar

 1. Prófastur setti fundinn og las úr Davíðssálmum og leiddi bæn.
 2. Fundargerðir héraðsfundar og héraðsnefndarfunda samþykktar.
 3. Ársreikningar og fjárhagsstaða. Rætt var um breytt fyrirkomulag við bókun, gerð ársreikninga, launagreiðslur og uppgjör. Prófastur er að leita tilboða hjá bókhaldsfyrirtækjum og héraðsnefnd samþykkti að skoða þann möguleika að færa öll fjármál til eins fyrirtækis. Prófasti var falið að halda áfram að skoða þessi mál.
 4. Styrkbeiðnir.
  1. Styrkbeiðni barst frá söngmálastjóra um styrk vegna dags kirkjutónlistar að upphæð kr. 100 000. Hátíðin var haldin í Hjallakirkju þetta árið. Styrkbeiðni samþykkt.
  1. Styrkbeiðni barst frá Lenku Mátéová organista Kópavogskirkju vegna tónleika sem Kór Kópavogskirkju er að halda ásamt Kór Vídalínskirkju.  Umsóknin hljóðar upp á kr. 190 119. Héraðsnefnd hafnaði þessari styrkbeiðni því að héraðsnefnd styrkir alla jafna ekki tónleika kirkjukóra sem haldnir eru reglulega í öllum söfnuðum landsins.
  1. Styrkbeiðni barst frá Tryggva Franklín Hákonarsyni vegna myndbandsgerðar á jólamessu með sr. Sigurbirni Einarssyni sem hann hefur fengið hjá Ruv og komið á Youtube. Beiðninni var hafnað.
 5. Önnur mál. Náms- og kynnisferð prófastsdæmisins var rædd og ákveðið að fresta ákvarðanatöku fram á haust og taka þá upp vinnu við skipulagið á ný.

Prófastur nefndi að kominn væri tími til að prestar, starfsfólk og sóknarnefndarfólk geri sér glaðan dag í haust. Samþykkt var að halda daginn föstudaginn 1. september kl. 17- 19 í Grafarvogskirkju. Prófasti falinn undirbúningur að gleðidegi í Grafarvogskirkju.

Héraðsfundur haldinn í Guðríðarkirkju 3. maí 2023

Áður en fundur hófst leiddi sr. Leifur Ragnar Jónsson helgistund í kirkjunni.

 1. Prófastur setti fundinn og bauð fólk velkomið. Þá stakk hún upp á Ástu Ágústsdóttir djákna sem fundarstjóra og sr. Guðrúnu Karls Helgudóttir sem ritara fundarins. Uppástungurnar voru samþykktar einróma.
 2. Skýrsla prófasts. Prófastur flutti skýrslu sem hófst á því að ræða lauslega fjölbreytni í safnaðarstarfi safnaða prófastsdæmisins. Prófastur stiklaði á stóru og fór yfir það helsta í prófastsdæminu s.s.námskeið, fræðslu, gjöf prófastsdæmisins á barnabiblíum til skírnarbarna o.fl. Prófastur fór yfir breytingar í starfsliði innan prófastsdæmisins. Fækkað hefur um fjóra presta í prófastsdæminu frá síðasta héraðsfundi.

Prófastur sagði frá vísitasíu biskups Íslands í söfnuði prófastsdæmisins en þeirri heimsókn er nú lokið. Það sem gladdi biskup mest úr vísitasíunni var sú gleði sem augljóslega ríkir í kirkjunni.

Prófastur fór yfir ýmsar vörður í starfi safnaða prófastsdæmisins s.s. afmæli og orgelvígslu. Prófastur sagði frá nýrri stöðu svæðisstjóra æskulýðsmála en svæðisstjórinn fær greidd laun frá biskupsstofu og hefur umsjón með fjölmennustu prófastsdæmunum þremur. Hún er með aðstöðu í Breiðholtskirkju.

Prófastur ræddi erfiða stöðu safnaða vegna verðbólgu og vaxtahækkana í samfélaginu. Að lokum minnti hún fundarfólk á að vera glöð.

Engin umræða var um skýrsluna en prófastur fór aftur í pontu og leiðrétti þann misskilning sem hefur borið á í prófastsdæminu um lögmæti aðalsafnaðarfundar Digranessafnaðar sem haldinn var nýlega. Hún áréttaði að ítrekað væri vísað í lög um almannaheillafélög. Þjóðkirkjan er þó ekki almannaheillafélag heldur trúfélag og lýtur því lögum um trúfélög auk landslaga. Þjóðkirkjan er á almannaheillaskrá en er skráð sem trúfélag.

 • Ársreikningur og fjárhagsáætlun. Eiður Steingrímsson fór yfir ársreikning héraðssjóðs og sr. Bryndís Malla Elídóttir kynnti fjárhagsáætlun 2024.

Ein fyrirspurn kom um hækkun á liðnum endurskoðun og bókhald sem hefur hækkað nokkuð í fjárhagsáætlun.

Ársreikningur og fjárhagsáætlun voru samþykkt einróma.

 • Starfsskýrslur. Skýrslur voru sendar í tölvupósti til allra fundargesta. Framkvæmdarstjóri eldriborgararáðs, héraðsprestur og svæðisstjóri æskulýðsmála fóru í pontu og sögðu að það mætti spyrja þau út í skýrslurnar en engar spurningar bárust. Prestur innflytjenda kom upp og ræddi hvernig söfnuðir þjóðkirkjunnar tækju á móti innflytjendum og að hægt væri að fá aðstoð frá þeim varðandi það starf.
 • Kirkjuþingsmál, skýrsla leikmannastefnu og prestastefna.

 Sr. Guðni Már Harðarson kirkjuþingsfulltrúi sagði frá því að hann upplifði klofning á milli óvígðra og vígðra fulltrúa á kirkjuþingi, að margt væri gert til að tortryggja hina vígðu stétt presta. Hann talaði um að sífellt væri verið að reyna að breyta leikreglunum og að mikil valdabarátta væri í gangi. Hann talaði um að hann vildi að sett yrðu starfsreglur sem þyrfti að hafa meira fyrir að breyta en nú er. Þá nefndi hann að kirkjuþing kostaði 93 milljónir á ári. Hann bað hann sr. Kristján Björnsson vígslubiskup að standa fyrir orðum sem hann lét falla á síðastliðnu kirkjuþingi þar sem hann sagði m.a. að hann fagnaði máli 48.

Árni Helgason kirkjuþingsfulltrúi sagðist ekki kannast við togstreitu á milli leikra og lærðra en hann ræddi áhyggjur sínar af fjárhagsstöðu Þjóðkirkjunnar. Hann sagðist vilja byrja á að lækka kostnaðinn við kirkjuþing sem samsvarar helmingi rekstrarhalla Þjóðkirkjunnar.

Sr. Kristján Björnsson brást við spurningum sr. Guðna Más.

Matarhlé. Fyrir matarhlé söng sr. María Rut Baldursdóttir tvö lög af sinni alkunnu snilld.

Engin leikmannastefna var haldin á árinu og því barst engin skýrsla.

Sr. Bryndís Malla Elídóttir flutti fréttir af prestastefnu sem haldin var 26. – 28. apríl síðastliðinn. Hún sagði frá vinnu við helgihald auk ályktunar sem samþykkt var vegna ópíumfaraldurs sem nú ríður yfir landið og þær skelfilegu fréttir að ungt fólk sé að deyja úr ofskömmtun.

 • Kosning.
 • Kosning í héraðsnefnd. Kosið var um vígða fulltrúa í héraðsnefnd. Sr. Guðrún Karls Helgudóttir gaf kost á sér sem aðalmanneskja (hún hefur verið varamanneskja) og sr. Pétur Ragnhildarson gaf kost á sér sem varamanneskja. Engin önnur framboð bárust og þau voru kosin einróma.
 • Skoðunarfólk reikninga. Árni Helgason og sr. Sigurður Grétar Helgason gáfu kost á sér sem aðalmanneskjur. Edda Ástvaldsdóttir gaf kost á sér sem varamanneskja auk sr. Örnu Ýrr Sigurðardóttur. Þau voru kosin einróma.
 • Kosningu fulltrúa í leikmannaráð. Kosning fulltrúa í leikmannaráð var frestað vegna fyrirstandandi breytinga á Leikmannaráði og var samþykkt að fresta kosningu.
 • Fulltrúar í fulltrúaráði Hjálparstarfs kirkjunnar. Vigdís V. Pálsdóttir gaf kost á sér sem aðalmanneskja og Eiður Steingrímsson sem varamanneskja. Þau voru kosin einróma.
 • Önnur mál.
 • Sr. Pétur Ragnhildarson, sr. Leifur Ragnar Jónsson og sr. Jón Ómar Gunnarsson fluttu eftirfarandi tillögu til ályktunar:

„Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra haldinn í Guðríðarkirkju, 3. maí 2023, beinir því til forsætisnefndar kirkjuþings að taka almennt ekki mál á dagskrá þingsins án þess að eðlileg kynning hafi farið fram í héraði t.d. á héraðsfundum eða þeim leiðarþingum sem haldin eru í aðdraganda kirkjuþings að hausti“.

Ályktunin varsamþykkt einróma.

 • Vígslubiskup sr. Kristján Björnsson bað um orðið. Hann sagði frá endurnýjun Skálholtskirkju og endurnýjun vígslubiskups en tilnefningar til vígslubiskups fóru fram um síðastliðna helgi. Þá sagði hann frá Skálholtshátíð sem verður í veglegri kantinum þar sem haldið verður upp sextíu ára vígsluafmæli kirkjunnar og bauð fundargesti velkomna á hátíðina. Hann hvatti fundinn til dáða og ráðlagði fólki að líta til systurkirknanna á norðurlöndunum.

Fundi slitið

Fundur Héraðsnefndar 3. maí

Mætt voru Bryndís Malla Elídóttir, Guðrún Karl Helgudóttir og Eiður Steingrímsson

 1. Ársreikningar héraðssjóðs. Héraðsnefndin fór yfir ársreikninginn og undirritaði.
 2. Fjárhagsáætlun héraðssjóð. Héraðsnefndin fór yfir fjárhangsáætlunina og samþykkti hana.

Ekki fleira rætt og fundi slitið.

Fundur héraðsnefndar 13. apríl 2023

Öll mætt

 1. Prófastur flutti bæn og las úr ritningunni
 2. Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.
 3. Undirbúningur héraðsfundar. Ákveðið var að bjóða ekki upp á erindi á þessum fundi þar sem dagskráin er þegar orðin þétt. Ekki eru komin drög að reikningum en prófastur mun senda héraðsnefndinni þá þegar þeir koma og þá verður haldinn fundur í kjölfarið. Fjárhagsáætlunin var rædd og nokkrir liðir ræddir sérstaklega m.a. í ljósi sparnaðar. Kjósa þarf tvær skoðunarmanneskjur sóknarnefnda. Einn prestur hefur haft samband við prófast og lýst yfir áhuga á að gefa kost á sér í héraðsnefnd en á næsta fundi verður kosið um vígða fulltrúa. Þá gefur Guðrún Karls Helgudóttir kost á sér í aðalnefnd en hún er varamaður.
 4. Niðurgreiðsla fyrir Vatnaskóg næsta ár. Niðurgreiðslan er nú kr. 4000 en héraðsnefnd samþykkti að hækka niðurgreiðsluna um kr. 200. Prófastsdæmið mun því niðurgreiða ferðina um kr. 4220.
 5. Styrkbeiðni. Framkvæmdarstjóri eldriborgararáðs sótti um styrk kr. 330000 vegna sumardvalar eldriborgara á Löngumýri í Skagafirði. Héraðsnefnd samþykkt að veita þennan styrk.
 6. Kynnisferð prófastsdæmisins. Verið er að skoða að fara í kynnisferð til Ísraels næsta ár. Nú er komið tilboð í ferðina. Héraðsnefnd ræddi málið og var sammála um að dagskráin væri heldur þétt og vilja skoða málið aðeins betur og jafnvel að kanna með ódýrari ferð.
 7. Önnur mál. Engin önnur mál.

Fundi slitið.

Fundur héraðsnefndar í Breiðholtskirkju 16. Mars 2023

Allir fulltrúar voru mættir.

 1. Ritari las úr ritningunni og leiddi bæn.
 2. Fundargerð síðasta fundar var samþykkt einróma.
 3. Héraðsfundur. Prófastur ræddi fjárhagsáætlun prófastsdæmisins og fór yfir málefni héraðsfundar sem haldinn verður í Guðríðarkirkju 3. maí kl. 17. Rætt var að bjóða upp á erindi á fundinum.
 4. Kynnisferð 2024. Nefnd er að störfum við undirbúning að kynnisferð fyrir presta, djákna, sóknarnefndarformenn, héraðsnefnd og starfsfólk prófastsdæmisins vorið 2024. Nefndin er með ákveðna hugmynd sem þarf að skoða betur áður en upplýst er um hvað ræðir.
 5. Sálmamaraþon. Rætt var um sálmamaraþon en stefnt er að því að halda sálmamaraþon í samstarfi við RUV þar sem bein útsending verður frá söng kirkjukóra úr allri nýju sálmabókinni. Gert er ráð fyrir þátttöku safnaða, kóra og organista af öllu landinu í þessu verkefni. Þá er einnig gert ráð fyrir að héraðssjóðir komi að þessu verkefni með einhverjum hætti en prófastur og héraðsnefnd setja spurningamerki við það þar sem ekkert formlegt erindi hefur borist þess efnis.
 6. Önnur mál.

Stefnt var að því að halda námskeiðið Hinsegin 101, 13. apríl kl. 15.

Haldið var öryggisnámskeið í prófastsdæminu fyrir stuttu síðan þar sem farið var yfir öryggismál í kirkjum og viðbrögð við ógnandi aðstæðum. Námskeiðið heppnaðist vel og rætt var að halda samskonar námskeið í haust.

Ekki var fleira rætt og fundi slitið.

Fundur héraðsnefndar 2. febrúar 2023

Full mæting héraðsnefndar.

 1. Ritningarlestur og bæn. Prófastur las úr ritningunni og bað fyrir fundinum.
 2. Fundir héraðsnefndar fram á sumar.
 3. Leigusamningar við Breiðholtskirkju. Prófastsdæmið er með einn leigusamning við Breiðholtskirkju vegna skrifstofu prófasts, héraðsprests, framkvæmdarstjóra eldriborgararáðs og ritara. Þá þarf að gera leigusamning vegna skrifstofu svæðisstjóra æskulýðsmála. Sá leigusamningur er á milli Breiðholtskirkju, Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og Kjalarnessprófastsdæmis. Samningurinn hljóðar upp á kr. 70.000 á mánuði og deilist niður á prófastsdæmin þrjú. Samningurinn var samþykktur af héraðsnefnd.

Tími er kominn á endurskoðun á leigusamningi við Breiðholtskirkju vegna skrifstofu prófasts, héraðsprest, framkvæmdarstjóra eldriborgararáðs og ritara. Prófastur lagði fram drög að endurskoðuðum samningi sem hljóðar upp á kr. 175 000 á mánuði. Hann var samþykktur.

 • Launasamningur við framkvæmdarstjóra Eldriborgararáðs. Framkvæmdarstjórinn óskaði eftir launasamtali við prófast. Hún vildi skipta um stéttafélag og færa sig úr VR og yfir í Fræðagarð sem þýðir þó nokkra launahækkun. Prófastur lagði fram tillögu að samningi sem var ræddur og samþykktur í meginatriðum.
 • Fjárhagsáætlun svæðisstjóra æskulýðsmála. Prófastur kynnti áætlun nýráðins svæðisstjóra æskulýðsmála. Áætlunin var skoðuð og rædd.
 • Kynnisferð prófastsdæmisins. Áætlað er að fara í kynnisferð á vegum prófastsdæmisins árið 2024 að vori. Samþykkt var að setja saman nefnd sem gerði tillögur að áfangastöðum.
 • Öryggisnámskeið. Á síðasta fundi var samþykkt að bjóða upp á öryggisnámskeið fyrir kirkjuverði. Ákveðið var að taka tilboði frá Öryggismiðstöðinni. Kostnaðurinn er

kr. 130 000. Námskeiðið tekur einn og hálfan tíma.

 • Önnur mál. Ritari lagði til að námskeiðið Hinsegin 101 verði haldið fyrir starfsfólk og sóknarnefndir safnaða prófastsdæmisins. Samþykkt var að halda það eftir páska.

Ekki fleira rætt og fundi slitið.

Héraðsnefndarfundur 1. desember 2022 á skrifstofu prófasts

Mætt eru Eiður Steingrímsson, Sigurður Þórir Þorsteinsson og Bryndís Malla Elídóttir. Guðrún Karls Helgudóttir boðaði forföll. Prófasti falið að rita fundargerð.

1.         Fundarsetning

Prófastur las spádóm um Immanúel úr Jesaja og fór með bæn

2.         Öryggismál í kirkjum.

Rætt um öryggismál í kirkjum og hvaða leiðir séu bestar til þess að efla öryggi í kirkjum bæði fyrir kirkjugesti og starfsfólk. Ákveðið að fela prófasti að kanna og undirbúa námskeið fyrir presta og starfsfólk um öryggismál og hvernig bregðast eigi við ef öryggi er ógnað með einhverjum hætti í kirkjunum.

3.         Jólagjafir til starfsfólks

Hefð er fyrir því að færa héraðsnefnd, ritara prófastsdæmisins, héraðspresti og framkvæmdastjóra Eldriborgararáðs þakklætisvott fyrir jólin og var ákveðið að í ár væri þeim færður konfektkassi.

4.         Styrkbeiðnir

Þónokkuð hefur borist af styrkbeiðnum frá hinum ýmsum félagasamtökum. Ítrekuð var fyrri ákvörðun héraðsnefndar að hafna öllum minni styrkbeiðnum eins og styrktarlínum í blöð félagasamtaka en velja í stað þess ákveðin málefni sem hljóta þá stærri styrki frá héraðsnefnd. Á þessu ári hefur til dæmis Hjálparstarfi kirkjunnar verið veittur góður styrkur frá prófastsdæminu.

Ekki varð af námskeiðinu Jólaórói að þessu sinni vegna dræmrar þátttöku og fellur sá styrkur því niður.

5.         Önnur mál

Rætt um fyrirhugaða kynnisferð prófastsdæmisins sem stefnt er að árið 2024 og ákveðið að hefja undirbúning strax í upphafi næsta árs með því að stofna undirbúningsnefnd. Héraðsnefnd þarf einnig að ákveða markmið ferðarinnar og tímaramma og gott að hefja undirbúning í góðum tíma.

Rætt um skráningu í þjóðkirkjuna og mikilvægi þess að vekja athygli á því eins og margir gerðu nú fyrir 1. desember að sóknargjöldin renna beint til safnaðanna.

Stefnt er að næsta fundi í fyrstu viku febrúar ef ekki verða brýn mál í upphafi árs sem héraðsnefnd þarf að taka fyrir.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið.

Fundur héraðsnefndar haldinn í Breiðholtskirkju 3. nóvember 2022

Mætt: Sr. Bryndís Malla Elídóttir, Eiður Steingrímsson, sr. Guðrún Karls Helgudóttir og Sigurður Þórir Þorsteinsson

 1. Sr. Guðrún las úr Ritningunni og flutti bæn.
 2. Úthlutun úr jöfnunarsjóði sókna. Prófastur fór yfir úthlutanirnar og þær voru ræddar og samþykktar.
 3. Styrkbeiðnir. Héraðsnefnd samþykkti á milli funda að veita styrk upp á kr. 2000 á barn sem fer með æskulýðsfélögum Árbæjar- og Seljakirkju á mót í Vindáshlíð.

Styrkbeiðni barst aftur frá sr. Petrínu Mjöll Jóhannesdóttur og sr. Báru Friðriksdóttur vegna Jólaóróans. Sótt var um kr. 100 000. Rökin fyrir endurtekinni umsókn eru þau að um er að ræða þróunarverkefni á prófastsdæmisvísu sem nýtast mun öðrum söfnuðum í framtíðinni. Þær munu síðan leita til Fræðslusviðs Þjóðkirkjunnar um áframhaldandi þróun og vonandi útgáfu. Styrkbeiðnin var samþykkt.

 • Vísitasía. Biskup Íslands hefur hafið vísitasíu í prófastsdæminu og mun heimsækja söfnuðina á haustönn og framundir fermingar í vor.
 • Öryggismál. Nokkuð hefur verið rætt um öryggismál starfsfólks í Breiðholtskirkju. Fólk upplifir sig oft óöruggt þegar það er er eitt í húsi auk þess sem enginn kirkjuvörður er á staðnum þegar söfnuður innflytjenda er með guðsþjónustur. Prófastur hefur kannað kostnað á öryggishnappi með presta innflytjenda í huga þar sem meira hefur borið á ofbeldi gegn fólki í þeim söfnuði. Prófastur leggur til að héraðsnefndin skoði þann möguleika að prófastsdæmið styrki söfnuð innflytjenda og þá um leið Breiðholtssöfnuð við uppsetningu og rekstri á öryggishnappi t.d. með því að greiða helming á móti Breiðholtssöfnuði. Málið var töluvert rætt í nefndinni og m.a. viðraður sá möguleiki að skoða útboð á öryggishnappi fyrir söfnuði prófastsdæmisins. Eiður mun ræða við öryggisfyrirtæki og kanna möguleika á tilboðum ef söfnuðir taka sig saman.
 • Héraðsfundur. Samþykkt var að halda héraðsfund 26. apríl næstkomandi kl. 17. Prófastur mun þá hvetja söfnuði til að halda aðalsafnaðarfundi fyrir þann tíma.
 • Önnur mál.

Sigurður lagði fram samning á milli Vatnaskógar og Reykjavíkurprófastsdæma vegna fermingarferðalaga.

Fundi slitið

Fundur héraðsnefndar í Breiðholtskirkju 29. September 2022

Mætt: Sr. Bryndís Malla Elídóttir, Eiður Steingrímsson, sr. Guðrún Karls Helgudóttir og Sigurður Þórir Þorsteinsson

 1. Prófastur las úr ritningunni og leiddi fundarfólk í bæn.
 2. Aukahéraðsfundur. Héraðsnefnd undirbjó fundinn sem verður 5. október í safnaðarheimili Kópavogskirkju, Borgum. Aðalfundarefni verður fjárhagsáætlun en auk þess kemur gestur frá fræðslusviði og ræðir safnaðaruppbyggingu.
 3. Prófastur lagði til að boðið yrði upp á námskeið um kynningarmál fyrir starfsfólk kirkna. Þá var rætt um að bjóða upp á hinseginfræðslu fyrir starfsfólk safnaða á vorönn.
 4. Styrkbeiðnir. Tvær styrkbeiðnir bárust. Sú fyrr frá æskulýðsfélögunum Sakúl í Árbæjakirkju og Sela í Seljakirkju en beðið var um styrk kr. 9000 á barn til að sækja æskulýðsmót í Vindáshlíð 11. – 13. nóvember. Samþykkt var að skoða málið betur og ræða við prófast í Reykjavíkurprófastsdæmis vestra og kanna hvort eitthvað sé hægt að samræma. Landsmóti var frestað!

Síðari styrkbeiðnin er frá sr. Petrínu Mjöll Jóhannsdóttur og sr. Báru Friðriksdóttur vegna Jólaóróa, stuðningssamveru og námskeiðs fyrir þau sem kvíða aðventu og jólum. Námskeiðið var haldið í fyrsta sinn fyrir síðustu jól og var vel sótt. Beiðnin var rædd ítarlega en venjan hefur verið sú að styrkja nýtt starf eða nýbreytni í starfi. Samþykkt var að benda umsækjendum á aðrar fjármögnunarleiðir.

 • Önnur mál.

Á síðasta fundi var ákveðið að hækka laun ritara. Prófastur lagði fram minnisblað vegna launahækkunar ritara. Launahækkunin var samþykkt.

Ræddar voru fyrirliggjandi breyting sem verða á ÆSKR um næstu áramót.

Prófastur tjáði héraðsnefnd að framkvæmdarstjóri Eldriborgararáðs væri í veikindaleyfi fram að áramótum.

Héraðsnefnd þarf að tilnefna fulltrúa í samninganefnd við Vatnaskóg vegna fermingarferða í Vatnaskóg. Samþykkt var að Sigurður Þórir Þorsteinsson tæki hlutverkið að sér.

Fundi slitið

Fundur héraðsnefndar haldinn í Breiðholtskirkju 1. september 2022

Mætt: sr. Bryndís Malla Elídóttir, Eiður Steingrímsson, sr. Guðrún Karls Helgudóttir og Sigurður Þórir Þorsteinsson

 1. Prófastur las úr ritningunni og leiddi bæn.
 2. Fundartímar í vetur. Fundartímar héraðsnefndar voru ákveðnir fyrir haustið og verða fundirnir fyrsta fimmtudag í mánuði. Þá var samþykkt að halda auka héraðsfund        5. október kl. 17 í Breiðholtskirkju.
 3. Fermingarnámskeið. Héraðsnefnd sanþykkti að niðurgreiðsla héraðssjóðs á fermingarnámskeiðum í vatnaskóg yrði kr. 4000 á barn. Það er hækkun um kr. 700 á barn.
 4. Fjárhagsáætlun. Héraðsnefndin ræddi fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og samþykkti að mestu leyti tillögur prófasts en sr. Bryndís Malla mun kanna nokkur atriði áður en hún verður endanlega samþykkt af hérðarsnefndinni. Nokkrar breytinar verða gerðar frá undanförnum árum og reynt að lækka kostnað við nokkra þætti. Ákveðið var að styrkja nýsköpun á næsta ári og leggja enn meira í fræðslu en verið hefur.
 5. Önnur mál. Engin önnur mál voru rædd.

Fundi slitið.

Hér má nálgast fundargerðir Héraðsnefndar.

Fundur héraðsnefndar haldinn í Breiðholtskirkju 3. júní 2022

Mætt voru sr. Bryndís Malla Elídóttir, Eiður Steingrímsson, sr. Guðrún Karls Helgudóttir og Sigurður Þórir Þorsteinsson.

.

 1. Ritningarlestur og bæn. Prófastur las úr Ritningunni og fór með bæn.
 2. Fundartímar og þóknun héraðsnefndar. Fundartímar verða áfram reglulega einu sinni í mánuði en fastir fundartímar verða ákveðnir í ágúst. Þóknun fyrir fundarsetu í héraðsnefnd er kr. 21 830. Þóknananefnd ákvarðar þóknanir fyrir nefndarsetu.
 3. Styrkumsóknir. Ein umsókn barst héraðsnefnd frá sr. Jóni Ómari Gunnarssynir fyrir hönd undirgbúningssnfendar krakka-orgelhátíðar í Reykjavík. Sótt er um styrk að upphæð 200 000. Fleiri aðilar hafa styrkt verkefnið. Samþykkt var að veita þennan styrk.
 4. Önnur mál. Engin önnur mál.

Fundi slitið.

Héraðsfundur haldinn í Fella- og Hólakirkju 18 maí 2022

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Ásta Ágústsdóttir var kosin fundarstjóri og sr. Guðrún Karls Helgudóttir ritari.
 2. Skýrsla héraðsnefndar. Prófastur, sr. Bryndís Malla Elídóttir, flutti samsetta skýrslu frá fráfarandi prófasti og nýjum prófasti. Hún þakkaði traustið sem henni hefur verið sýnt og stuðninginn sem hún hefur fundið frá því hún tók við stöðu prófasts. Hún ræddi um það hversu fjölbreytt starfið í söfnuðunum er en fyrir utan fjölbreytt starf eiga allir söfnuðirnir það sameiginlegt að boða Jesú Krist upprisinn. Hún fór aðeins yfir starfið í vetur sem leið sem þó nokkuð einkenndist af heimsfaraldrinum. Hún þakkaði kirkjuvörðum sérstaklega fyrir vel unnin störf og hugmyndaauðgi á erfiðum tínum sem og öllu starfsfólki. Prófastur fór yfir nýja samþykkt kirkjuþings um æskulýðsmál sem mun hafa áhrif á prófastsdæmið þar sem framkvæmdarstjóri ÆSKR, sem hefur verið starfsmaður Reykjavíkurprófastsdæmanna beggja, verður starfsmaður Þjóðkirkjunnar frá 1. janúar 2023. Prófastur ræddi aðeins starf alþjóðlega safnaðarins. Þá fór hún yfir starfið í hinum ýmsu söfnuðum prófastsdæmisins auk viðhaldsmála. Hún fór yfir breytingar á vígðri þjónustu í söfnuðinum en fækkað hefur um einn prest í prófastsdæminu sem er hið fjölmennasta á landinu. Prófastur þakkaði sr. Gísla Jónassyni fyrrum prófasti vel unnin störf og trúa þjónustu.

Prófastur lauk skýrslu sinni á að þakka hið fjölbreytta starf í prófastsdæminu og hvatti til trúmennsku í þjónustu við Drottinn.

 • Ársreikningur 2021. Eiður Steingrímsson kynnti ársreikninginn.
 • Prófastur kynnti fjárhagsáætlun. Héraðsnefndin biður um frest fram á haust á kynningu á fjárhagsáætlun þar sem héraðsnefndin mun endurskoða hana í sumar og leggja svo fram til umræðu á aukahéraðsfundi í haust. Fjárhagsáætlunin var því bara uppfærð til að byrja með. Nýr liður er þó þegar kominn á fjárhagsáætlun en það er nýsköpun.
 • Umræða um ársreikninga.

Sr. Jón Ómar Gunnarsson nefndi hvort hægt væri að hækka niðurgreiðslu fermingarbarnanámskeiða.

Sr. Leifur Ragnar Jónsson nefndi þá gríðarlega háu upphæð sem söfnuðir greiða í héraðssjóð og sagði frá umræðu í hans sóknarnefnd um að lítið fáist til baka fyrir þann pening. Hann beindi því til kirkjuþingsfulltrúa að skoða lækkun á gjaldi sókna til héraðssjóðs. Þá var rætt um áhrif covid á ársreikninginn en þar sem svo mikið af starfinu lá niðri vegna faraldursins var ekki hægt að ráðstafa nema hluta af þeim peningum sem áætlað hafði verið að færi í starfið. Héraðssjóður er því nokkuð sterkur sem stendur en kemur það ekki til af góðu.

Ársreikningar voru samþykktir einróma.

Fjárhagsáætlun var samþykkt en einn fulltrúi sat hjá.

 • Framlagðar starfsskýrslur. Eftirfarandi skýrslur bárust:
  a) Starfsskýrslur og ársreikningar sókna
  b) Eldriborgararáð Reykjavíkurprófastsdæma
  c) Skýrsla héraðsprests
  d) Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma (skýrslur þeirra eru aðgengilegar á www.kirkjugardar.is )                                                                                        e) Leikmannastefna
  f) Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum (ÆSKR)                           g) Skýrsla prests innflytjenda

Prestur innflytjenda fylgdi skýrslu sinni úr hlaði og sagði frá starfi sínu og annarra með flóttafólki frá Úkraínu undanfarnar vikur.

h) Þá kvaddi dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur sér hljóðs og bauðst til að fara í kirkjur og ljúka upp fyrir fólki leyndardómum kirkjubygginga.

 • Umræða um mál frá kirkjuþingi og Leikmannastefnu.
 • Skýrsla kirkjuþingsfulltrúa.
 • Skýrsla fulltrúa Leikmannastefnu.

Engar skýrslur voru fluttar.

 • Kosningar. Kjósa þurfti leikmann og varamann í héraðsnefnd. Eiður Einarsson var kosinn leikmaður og Sigurður Þ. Þorsteinsson til vara.
 • Önnur mál. Ritari kynnti tvær ályktanir sem samþykktar voru á prestastefnu sem haldin var í Miðfirði 26. – 28. apríl síðastliðinn.

Í lok fundar var Benediktu Waage afhent blóm og gjöf sem þakklætisvottur fyrir störf sín í héraðsnefnd prófastsdæmisins.

Fundi slitið.