Kolbrún Baldursdóttir

Framboð til kirkjuþings

Biskupsstofa
Kynningarbréf

Ég hef gefið kost á mér til setu á kirkjuþingi.

Með bréfi þessu vil ég leitast við að gera nánari grein fyrir mér. Kirkjan og málefni hennar hafa ávallt verið mér hugleikin og langar mig að leggja mitt af mörkum til starfa í tengslum við Þjóðkirkjuna.

Ég heiti Kolbrún Baldursdóttir, fædd 1959, og er löggildur sálfræðingur frá árinu 1992. Ég fékk sérfræðiviðurkenningu Landlæknisembættisins í klínískri sálfræði 2008. Ég er með kennsluréttindi bæði á grunn- og framhaldsskólastigi og hef kennt á öllum skólastigum.

Í dag er ég verktaki einn dag í viku á Göngudeild sóttvarna. Starf mitt þar felst í að veita hælisleitendum sálfræðiþjónustu. Ég er jafnframt launþegi í 50% starfi hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins í Mjódd. Þar hef ég starfað sem sálfræðingur í tæp fimm ár. Starfið felst í að veita börnum og foreldrum þeirra sálfræðiráðgjöf og meðferð.

Ég lauk BA prófi við Háskóla Íslands og fór í beinu framhaldi til Rhode Island fylkis í Bandaríkjunum í framhaldsnám. Á því 5 ára tímabili sem ég bjó í Rhode Island lauk ég meistaraprófi í Menntunarsálfræði og ráðgjöf (Educational psychology and Counseling) og útskrifaðist 1988. Ég ákvað síðan að bæta við mig meistaragráðu í Félags- og persónuleikasálfræði sem ég lauk vorið 1991. Veturinn 1989 til 1990 dvaldi ég á Íslandi þar sem ég eignaðist yngri dóttur mína.

Ég hef jafnframt gegnt formennsku hjá samtökunum Barnaheill- Save the Children á Íslandi undanfarin 6 ár en í apríl sl. lauk formennsku minni en samkvæmt lögum samtakanna er það hámarkstími sem formaður getur setið.

Önnur helstu verkefni mín er kennsla og fyrirlestrahald um hin ýmsu sálfræðilegu málefni. Efst á baugi hjá mér undanfarinn áratug eru samskipta- og eineltismál, forvarnir og úrvinnsla eineltismála. Ég hef rekið sálfræðistofu (til hliðar við aðra vinnu) frá 1993 þar sem ég hef veitt alhliða sálfræðiþjónustu fyrir alla aldurshópa.  Sálfræðistofa mín er staðsett í Álfabakka 12.

Eins og að ofan greinir hafa eineltismálin átt hug minn allan undanfarin ár. Ég fer með fræðslu í leik- og grunnskóla sem og á vinnustaði. Ég er iðulega beðin um að handleiða í eineltismálum, veiti ráðgjöf en leiðbeini einnig með úrvinnslu. Í gegnum árin hef ég skrifað fjölda greina, pistla og efni sem hefur verið birt í ýmsum fjölmiðlum. Árið 2012 kom bókin „Ekki meir“ út hjá Skólavefnum ehf. sem ég er höfundur að. „Ekki meir“ er handbók um eineltismál. Hægt er að kynna sér nánar feril minn og störf á heimasíðu minni www.kolbrunbaldurs.is.

Grunnupplýsingar og upplýsingar um fjölskylduhagi
Ég er fædd og uppalin í Vesturbæ Reykjavíkur, yngst fjögurra systkina. Ég gekk í Melaskóla, Hagaskóla og fór þaðan í Verslunarskóla Íslands. Ég er gift Jóni Guðmundssyni, plöntulífeðlisfræðingi. Ég á tvær uppkomnar dætur, Karen Áslaugu sem er hagfræðingur í Seðlabanka Íslands og Hörpu Rún sem er lögfræðingur hjá Miklaborg, fasteignasölu. Barnabörnin mín eru þrjú.
Áhugamál mitt er einfaldlega að sinna starfi mínu sem best ég get af alúð og samviskusemi. Við hjónin erum með ræktunarsvæði á Rangárvöllum þar sem við eigum nú sumarhús og gestahús. Stórum hluta sumarsins dveljum við þar ásamt fjölskyldunni.

 

________________________________________________________

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur

Jakaseli 4

109 Reykjavík

  1. 899 6783

Netfang: kolbrunbald@simnet.is

Heimasíða: www.kolbrunbaldurs.is