Fundargerð héraðsfundar 2017

Héraðsfundur haldinn í Lindakirkju 23. maí 2017

Séra Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup leiddi bænastund í kapellu Lindakirkju fyrir fundinn.

 1. Setning fundar og kosning fundarstjóra

Prófastur, sr. Gísli Jónasson setti fundinn og lagði til að Ásta Ágústsdóttir yrði kosin fundastjóri. Hún var kjörin einróma.

 1. Kosning ritara.

Ásta tók við fundarstjórn og lagði til að sr. Guðrún Karls- Helgudóttir yrði kosin ritari. Hún var kosin einróma.

 1. Ársskýrsla prófasts.

Prófastur fór yfir skýrsluna og lagði til að fundurinn klappaði fyrir þeim áfanga að í fyrsta skipti hefðu allir sóknarprestar skilað messugjörðarskýrslum. Þar kom m.a. fram að skírnum hefur fjölgað á milli ára á meðn fermingarbörnum hefur fækkað svolítið. Þar kom einnig fram að yfir 100 000 manns sóttu helgihald í prófastsdæminu síðasta ár. Að öðru leyti stiklaði hann á stóru og hægt er að lesa skýrsluna á heimasíðu prófastsdæmisins https://www.eystra.is/ .

 1. Ársreikningur Héraðssjóðs fyrir árið 2016.

Prófastur fór yfir ársreikninginn.

 1. Fjárhagsáætlun Héraðssjóðs fyrir árið 2018.

Prófastur kynnti fjárhagsáætlunina. Þá var ársreikningurinn borinn upp til samþykktar og var samþykktur. Þá lagði fundarstjóri fjárhagsáætlunina fram til samþykktar og hún var samþykkt.

 1. Erindi

Hildur Björk Hörpudóttir flutti erindi um líðan og stöðu prestsvígðra kvenna í starfi í Þjóðkirkjunni. Nokkrar umræður spunnust um niðurstöðurnar.

 1. Starfsskýrslur.

a) Starfsskýrslur og ársreikningar sókna lágu frammi og eru skýrslur aðgengilegar á heimasíðu prófastsdæmisins.

b) Skýrsla eldriborgararáðs. Þórey Dögg Jónsdóttir djákni og  framkvæmdarstjóri eldriborgararáðs kynnti skýrsluna og fór yfir starfið sem er afar blómlegt.

c) Skýrsla héraðsprests. Dr. Sigurjón Árni héraðsprestsur kynnti skýrslu héraðsprests.

d) Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma.   Skýrslur þeirra eru aðgengilegar á heimasíðu kirkjugarðana www.kirkjugardar.is.

e) Leikmannastefna. Skýrsla hennar var ekki kynnt.

f) Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum (ÆSKR). Framkvæmdastjóri eða fulltrúi sambandsins var ekki á staðnum og því var ekki kynnt skýrsla sambandsins.

Séra Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup í Skálholti tók til máls undir þessum lið. Hann vildi fyrst og fremst segja takk. Hann lýsti því hversu dýrðlegt það væri að hitta allt þetta fólk í kirkjunum. Hann sagði að það væri merkilegt að upplifa að á sama tíma og sóknarnefndarfólk er miklu ábyrgara en það var fyrir um tuttugu árum. þá er ábyrgð hins almenna safnaðarmanns ekki jafn mikil. Hann talaði um hversu lifandi Þjóðkirkjan væri sem trúarhreyfing.

 1. Kirkjuþingsmál.

Sr. Gísli Jónasson flutti munnlega skýrslu kirkjuþingsfulltrúa. Hann sagði að þar sem kirkjuþingsmál hafi verið svo mikið til umræðu í prófastsdæminu undanfarna mánuði þá væri ekki ástæða til að eyða miklum tíma í að endurtaka það allt saman. Hann sagði frá því að í febrúar hefði verið haldinn auka, auka kirkjuþingsfundur til þess að leiðrétta tæknileg atriði. Hann fór aðeins yfir hlutverk kjörnefnda og breytingar á þeim eftir síðasta kirkjuþing en kjörnefndir munu nú ekki einungis kjósa presta heldur einnig biskupa. Sr. Gísli fór einnig stuttlega yfir endanlegar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta.

 9. Kosningar.

Aðalmaður sr. Gunnar Sigurjónsson og sr. Guðrún Karls- Helgudóttir varamaður gáfu kost á sér á ný. Þau voru kosin einróma.

Tveir skoðunarmenn reikninga í kjöri voru Valmundur Pálsson og sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir sem aðalmenn og Edda Ástvaldsdóttir og sr. Sigurður Grétar Helgason sem varamann. Þau voru kosin einróma.

Fulltrúi  Hjálparstarf kirkjunnar og varamaður hans.  Í kjöri voru Magnús Ásgeirsson og Vigdís Pálsdóttir. Þau voru kosin einróma.

 1. Umræður um málefni sókna.

Einar Karl Haraldsson var kjörinn til þess að sinna málefnum sókna sérstakelga og hann kynnti sína vinnu. Þar ber helst að nefna sóknargjaldamálin. Hann sagði frá því að vandi kirkjunnar væri kannski ekki fyrst og fremst skuldavandi, þar sem söfnuðirnir skuldi minna en árstekjur, heldur er felst vandinn í rekstri safnaða. Hann fór yfir sóknargjaldamálin, tilkomu þeirra og aðferð við innheimtu og útreikninga. Hann sagði stöðuna vera erfiða þar sem sóknargjöldin hafa verið skert jafnt og þétt frá hruni. Í máli hans kom einnig fram að líklegt væri að krafa um frekari hagræðingu kæmi frá yfirvöldum á næstunni.

Hann ræddi einnig kynningarmál Reykjavíkurprófastsdæma og sagði þekkingu fólks á málefnum kirkjunnar vera takmarkaða og málefni kirkjunnar ekki vera vinsæl, eins á er, á alþingi. Því þarf að byggja upp sterkari ímynd af kirkjunni sem hreifingu og þátttökusamfélagi. Hann sagði frá nýjum vef sem verið er að undirbúa á biskupsstofu þar sem unnið verður með samfélagsmiðla, myndir, hljóð og tal. Vonin er að auðveldara verði að koma starfinu í sóknunum betur á framfæri í gegnum þennan vef.

Sr. Gunnar Sigurjónsson tók til máls um þetta innlegg og sagði frá því hvar hægt væri að finna upplýsingar um tilurð og sögu sóknargjaldana. Hann sagði frá því að tölur sem birtst hafi í fjölmiðlum undanfarið um fækkun fólks í Þjóðkirkjunni væru ekki sannar, heldur blekkingarleikur. Þetta gerist smám saman í sóknum sem eru fullbyggðar. Sóknir sem enn eru í stækkun, þar sem íbúum fjölgar finna ekki jafn vel fyrir þessu. Einnig fór hann yfir breytingu á skráningu barna í trúfélög. Sr. Gunnar fór einnig yfir stöðu kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmanna.

 1. Önnur mál.

Guðmundur Gíslason formaður sóknarnefndar í Seljakirkju kom í pontu og og ræddi sameiningu safnaða. Hann sagði að ef kirkjan ætlaði að sameina söfnuði hér þá yrði hún að losa sig við húsnæði, svo sem kirkjur.

 1. Fundarslit.

Fundarstjóri þakkaði fyrir fundinn og sr. Gísli Jónasson þakkaði og sleit fundi.

Að loknum fundi var sameinast í bæn.