Skýrsla eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma

ELDRIBORGARARÁÐ REYKJAVÍKURPRÓFASTSDÆMA

BREIÐHOLTSKIRKJU V / ÞANGBAKKA

109 REYKJAVÍK.

AÐALFUNDUR  10. APRÍL 2017.

SKÝRSLA  STJÓRNAR  OG  FRAMKVÆMDASTJÓRA.

FULLTRÚAFUNDIR OG STJÓRNARFUNDIR

Á þessu starfsári hélt ER 5 fulltrúafundi, 4 stjórnarfundi og 2 guðsþjónustur.

Fulltrúafundirnir voru eftirfarandi:

  1. október. Bústaðakirkja. Vinnufundur og hópavinna
  2. október. Digraneskirkja. Gestur: Soffía Jakobsdóttir leikkona leiðbeindi í framsögn og tjáningu.
  3. nóvember. Háteigskirkja. Gestur: Elín Birgitta Birgisdóttir hjúkrunarfræðingur flutti okkur fyrirlesturinn: „Eftirvænting“.
  4. febrúar. Hjallakirkja. Gestur: Séra Petrína Mjöll Jóhannesdóttir kenndi okkur að lifa í gleði og jákvæðni.
  5. mars. Lindakirkja. Gestur: Séra Svavar Stefánsson flutti okkur fyrirlesturinn „ Að eldast. Tilhlökkun eða kvíði“.

UPPSKERUHÁTÍÐ ELDIRBORGARARÁÐS 18. MAI 2016

 Uppskeruhátíð Eldirborgararáðs var haldin þann 18. maí s.l. í Breiðholtskirkju að vanda. Dagskráin fór að þessu sinni öll fram í safnaðarheimili kirkjunnar. Gestir okkar voru kvennakórinn Seljurnar og Dr.dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson sem spilaði fyrir okkur á saxafón og lék undir borðhaldi. Hátíðin var vel sótt og allir skemmtu sér hið besta.

JÓLAFUNDUR STARFSFÓLKS OG SJÁLFBOÐALIÐA.

“litlu jólin“ voru haldin föstudaginn 2. desember kl. 18:00 – 20:30 í Grensáskirkju.

Jólagleði starfsfólks í kirkjustarfi eldri borgara var haldin í Grensáskirkju föstudaginn 2. desember og var hún vel sótt að vanda. Í upphafi var helgistund sem sr. Helga Soffía Konráðsdóttir prófastur annaðist. Eftir helgistundina var boðið upp á kvöldverð af hlaðborði. Skemmtikraftar jólagleðinnar í ár voru þeir Dr.dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, Bjarki Guðmundsson og Snorri Skúlason. Saman mynda þeir tríóið SBS bandið sem lék fyrir okkur jólalög og einnig spiluðu þeir undir borðhaldi. Ýmislegt var til gamans gert, lesnar jólasögur og mikið sungið.

Einnig var jólapökkum útdeilt sem þátttakendur komu með og var það mjög vinsælt.

GUÐSÞJÓNUSTUR

Á liðnum árum hefur skapast sú hefð að ER. og kirkjurnar í prófastsdæmunum standi fyrir nokkrum guðsþjónustum í kirkjustarfi eldri borgara.

Haustguðsþjónusta var haldin í Fella- og Hólakirkju 20. september kl. 14:00.

Haustguðsþjónustan markar upphaf vetrarstarfs í kirkjustarfi eldri borgara og var hún vel sótt eins og ávallt. Séra Guðmundur Karl Ágústsson og djáknarnir Kristín Kristjánsdóttir og þórey Dögg Jónsdóttir þjónuðu fyrir altari. Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona og eigandi vefritsins Lifðu núna flutti hugleiðingu. Sönginn leiddu þær Áslaug Helga Hálfdánardóttir og Guðrún Óla Jónsdóttir við undirleik Óskars Einarssonar.

Eftir guðsþjónustuna buðu Fella- og Hólasöfnuðir upp á veitingar í safnaðarheimilinu. Góð mæting var og  fólkið mjög ánægt að hittast aftur að loknu sumarleyfi og þakklátt fyrir allt sem boðið var upp á.

Áramótaguðsþjónusta ER

Áramótaguðsþjónusta ER sem halda átti sunnudaginn 8. janúar í Kópavogskirkju var felld niður vegna veikinda framkvæmdastjóra

Föstumessa ER

Föstumessa ER var haldin að þessu sinni í Áskirkju. Ásdís Pétursdóttir Blöndal djákni predikaði og þjónaði fyrir altari ásamt séra Sigurði Jónssyni. Kammerkór Áskirkju leiddi almennan safnaðarsöng undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. Eftir guðsþjónustuna buðu Ássöfnuður og ER uppá léttar veitingar í forkirkju.

Stjórn ER færir þeim sem tóku á móti okkur í þessum kirkjum og aðstoðuðu á margvíslegan hátt bestu þakkir og óskar þeim öllum blessunar.

Uppskeruhátíð og 35 ára afmæli ER verður haldið fimmtudaginn 18. maí Kl. 18:00 í safnaðarheimili Breiðholtskirkju.

SUMARORLOF Á LÖNGUMÝRI.

Eldriborgararáð og Ellimálanefnd Þjóðkirkjunnar hafa í mörg undanfarin ár haft samvinnu um orlof eldri borgara á Löngumýri og hefur það gefist vel. Sl. sumar dvöldu þar fimm 30 manna hópar.  Á Löngumýri er mjög góð aðstaða fyrir fólk með minnkaða hreyfigetu og er því mjög heppilegur staður fyrir eldra fólk. Aðsókn var mikil og margir fengu ekki pláss. Allir dvalargestir fóru heim hressir og kátir eftir að hafa dvalið í sveitinni í nokkra daga. Með þessari ársskýrslu fylgir sérstök skýrsla um orlofið á Löngumýri og því er ekki gerð frekari grein fyrir orlofinu hér. Sjá fylgiskjal.