Ársskýrsla ÆSKR Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum

Skýrsla æskulýðsráðs og framkvæmdarstjóra

Ársskýrsla ÆSKR fyrir starfsárið 2016-2017

Lögð fram á ársfundi ÆSKR í Grensáskirkju 24. apríl 2017

Ársfundur 2016 og æskulýðsráð

Ársfundur ÆSKR 2016 fór fram 6. apríl í Grensáskirkju. Kristján Ágúst Kjartansson var fundarstjóri og Hjörtur Freyr Sæland ritari. Framkvæmdarstjóri kynnti ársskýrslu ÆSKR 2016-2017 og fór yfirhvað framundan var og kynnti fjárhagsáætlun fyrir starfsárið sem var framundan og var samþykkt á fundinum.

Á ársfundinum var kosið um tvo aðalmenn til tveggja ára og tvo varamenn til eins árs í æskulýðsráð ÆSKR. Kosningu hlutu Hafdís Ósk Baldursdóttir og Daníel Ágúst Gautason. Kosið var um tvö sæti varamanna til eins árs. Tvö voru í framboði til varamanns og kosningu hlutu Steinunn Anna Baldvinsdóttir og Sigurður Óskar Óskarsson.

Rætt var um mikilvægi þess að söfnuðir héldu úti virku æskulýðsstarfi og nauðsyn þess að við söfnuðina starfi æskulýðsfulltrúar í ákveðnu starfshlutfalli sem geri það mögulegt að einn umsjónaraðili hafi yfirsýn og yfir allt starfið og þjón sem sýnilegur tengiliður við söfnuðinn og forlendra, ínáanlegur á dagvinnutíma. Rætt var um nýjungar í áherslum ÆSKR undanfarinna starfsára sem viðbrögð við samfélagslegum breytingum, unglingamenningu og starfumhverfi æskulýðsstarfsfólks. Ánægja var með þróun starfseminnar sem felur í sér aukna áherslu á tegund sameiginlegra viðburða sem flóknara væri að skipuleggja í söfnuðunum sjálfum, stoðþjónustu af ýmsum toga, m.a. auka framboð ÆSKR á munum sem hægt er að lána félögum til nota á æskulýðsfundum en eru þess eðlis að ekki er hagkvæmt og óþarft að hver söfnuður eigi út af fyrir sig. Einnig var rætt um mikilvægi samskipta og samráð milli æskulýðsstarfsfólks og hlutverk ÆSKR að miðla því og sem miðlægur staður til upplýsingagjafar um stefnu starfsvettvang.

Skrifstofa og Æskulýðsráð

Kristján Ágúst Kjartansson starfar sem Æskulýðfulltrúi og framkvæmdarstjóri ÆSKR og starfar eftir Erindisbréfi æskulýðsfulltrúa ÆSKR sem felur í sér að halda utan um daglegan rekstur sambandsins auk þess að sjá um viðburði, námskeið og efnisgerð á vegum ÆSKR í samráði við æskulýðsráð sem og samskipti við aðila innan og utan kirkjunnar.

Fundir æskulýðsráðs eru haldnir á u.þ.b. 3 vikna fresti og oftar í aðdraganda viðburða á vegum ÆSKR. Andrea Ösp Andradóttir var valin formaður æskulýðsráðs og Katrín Helga Ágústsdóttir varaformaður. Æskulýðsráðið starfar á jafnræðisgrundvelli og varamenn taka fullan þátt í fundum og starfi ráðsins.

Starfsemi og helstu viðburðir

Dagskrá ÆSKR hefur undanfarin ár verið í nokkuð sambærileg milli ára og í föstum skorðum og þar sem haldið reglufast voru haldnir tveir viðburðir í hverjum mánuði, einn fyrir unglinga og annar fyrir leiðtoga. Það var mat framkvæmdarstjóra og æskulýðsráðs 2015 að tímabært væri að endurskoða fyrirkomulagið. Álitið var að um of marga smáa, einfalda viðburði væri að ræða sem flestir væru vel á færi hvers æskulýðsfélags að innifela í sinni dagskrá ef vilji væri fyrir hendi og aðkoma ÆSKR bætti þar litlu við. Einnig voru vísbendingar um það að full þátttaka æskulýðsfélaga í dagskrá ÆSKR trufli samfellu í dagskrá æskulýðsfélaga í sinni heimakirkju.

Því var afráðið að leggja áherslu á stærri viðburði þar sem samkoma fleiri æskulýðsfélaga hafi raunverulegan ávinning en fækka eða leggja af smáa viðburði eins og t.d. spilakvöld sem hægt er um vik fyrir æskulýðsfélög að setja sjálf á dagskrá á þeim tíma sem þeim hentar best. Sömu áherslu var beitt við endurskoðun viðburða fyrir leiðtoga. Við könnun á stöðu æskulýðsfulltrúa kemur skýrt fram að tími og starfshlutfall þeirra er fullnýtt og gott betur við að sinna og skipuleggja starf í sinni heimakirkju. Ennfremur gera ráðningar æskulýðsleiðtoga sjaldan ráð fyrir öðrum tíma en viðveru og undirbúnings vikulegra æskulýðsfunda en enginn tími innifalinn til að sinna námskeiðum, fundum og sameiginlegu starfi. Æsulýðsleiðtogar þurfa gjarnan að sækja slíka viðburði á eigin tíma og því er stefnt að því að reyna að koma til móts við aðstæður þeirra með því að gera það aðgengilegt að mæta í færri en íburðarmeiri viðburði.

Vaktu með Kristi

Vaktu með Kristi er páskaviðburður þar sem æskulýðsfélög hittast til að vaka saman alla nóttina og taka þátt í ýmiskonar afþreyingu á milli þess sem þau taka þátt í helgistundum þar sem farið er í gegnum píslasöguna. Þessi viðburður á uppruna sinn hjá Æskulýðsnefnd Kjalarnessprófastsdæmis en þar sem starfsemi þess hefur legið niðir um árabil hefur ÆSKR tekið viðburðinn að sér. Æskulýðsleiðtogar í Digraneskirkju buðust til að vera gestgjafar þetta árið. Viðburðurinn er, í samræmi við þema og dagskrá, haldinn að að kvöldi og aðfararnótt Föstudagsins langa. Þrátt fyrir jákvæðar viðtökur og áhuga unglinga er í vök að verjast með þátttöku og mjög greinanlegt að stórfeld aukning er á því að fjölskyldur ferðist þessa viku bæði innan og utan lands og vegna takmarkaðrar þátttöku var viðburðurinn felldur niður. Það er jákvætt að fjölskyldur eyði í auknum mæli tíma saman og umhugsunarvert að keppa um tíma barna á þeim tíma. Tekið verður til skoðunar að í staðinn bjóða upp á annað helgihald á tíma vetrarins þar sem meiri þörf er á félagsstarfi s.s. með æskulýðsmessum.

Kirkjuþing unga fólksins (KUF):

KUF var stofnsett af Kirkjuþingi og er á ábyrgð Biskupsstofu sem samið hefur við ÆSKÞ um framkvæmd og ráðningu verkefnastjóra. KUF er mikilvægur vettvangur fyrir unga fólkið að leggja sitt af mörkum til að móta þá kirkju sem þau munu erfa. Saman eiga Reykjavíkurprófastsdæmin 8 fulltrúa á þinginu sem koma fram fyrir fjölmennasta hérað þingsins. Það var því mat ÆSKR að æskilegt væri að fylgja fulltrúum eftir og væri aðstoðarmaður þeirra á þinginu. Að þingi loknu var það mat framkvæmdarstjóra og fulltrúa Rvp að æskilegt væri að aukin aðstoð við undirbúning og eftirfylgd væri nauðsynleg. Forseti KUF á sæti á almennu Kirkjuþingi og var það haldið í Grensáskirkju. Framkvæmdarstjóri var með opið hús á skrifstofu ÆSKR fyrir fulltrúa beggja þinga, bauð í kaffi og innlit. Þetta var vel heppnað. Fulltrúar Rvp á KUF voru á staðnum og gerðu æskulýðsvettvanginn mjög sýnilegan.

Vorviðburður ÆSKR

Æskulýðsleiðtogar hittust í heimahúsi, grilluðu, skemmtu sér og gerðu upp veturinn. Mikilvægt er að æskulýðsstarfsfólk hittist og þjappi sér saman. Við slíkt þjappar hópurinn sér saman og endurnærist og skilar sér í starfsgleði og eldmóð.

Stofnanakynning Guðfræðideildar HÍ

Þáttur í starfsnámi guðfræðinema er svokölluð stofnanakynning þar sem nemendahópur fær fyrirlestra og kynningu á margvíslegum þjónustusviðum Kirkjunnar. Að beiðni umsjónarfólks starfsnámsins sáu ÆSKR og ÆSKÞ um kynningu ekki aðeins á samböndunum sjálfum heldur var einnig reynt að gefa heildarmynd af æskulýðsstarfi Kirkjunnar. Viðbúið er að þetta verkefni sé komið til að vera.

Haustnámskeið leiðtoga

Ákveðið var því að halda líkt og fyrri ár veglegt haustnámskeið í samstarfi við ÆSKÞ sem tengt er við aðra námskeiðsdaga Biskupsstofu í september. Námskeiðið er boðið leiðtogum að kostnaðarlausu. Stefna ÆSKR er að allir leiðtogar sæki námskeiðið Verndum þau og séu með gilda vottun í skyndihjálp. Er þetta í samræmi við stefnu Æskulýðsvettvang Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þessi námskeið voru haldin haustið 2015 og verða aftur á dagskrá 2017. Haustið 2016 var haldið fræðslunámskeið byggt á Grunnnámskeiði æskulýðsfulltrúa sem er fræðsluefni kirkjunnar. Efnitök námskeiðsins eru þörf en ljóst er að efnið sem slíkt er komið til ára sinna. Það er því ljóst að það verður ekki notað aftur í núverandi mynd og því nauðsynlegt að nýtt efni eða þema verði notað næst. Þátttaka á námskeiðinu var samt sem áður góð og annað árið í röð fór fram úr vonum.

Haustviðburður æskulýðsfélaga

Í september var skemmtifundur haldinn í Hallgrímskirkju. Grillaðar voru pylsur og farið út í leiki og lokið með stuttri helgistund utandyra.

Landsmót ÆSKÞ

Í október hélt Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar Landsmót æskulýðsfélaga á Akureyri. Í ljósi þess að á bilinu 30% til 40% þátttakenda á mótinu koma frá Rvp og saman eru komnir til að fylgja sínum hópum æskulýðsleiðtogar víðsvegar hefur framkvæmdarstjóri verið viðstaddur á Landsmóti til að fylgja sínu héraði á mótið, nýta tækifærið til að styrkja tengsl á landsvísu og bjóða fram stuðning. Framkvæmdarstjóri sat einnig í mótsnefnd tók virkan þátt í framkvæmd mótsins. Var þetta í annað skipti í fjöldamörg ár sem framkvæmdarstjóri tók þátt í eða var viðstaddur Landsmót æskulýðsfélaga en viðvera reyndist á margan hátt gagnleg og er það mat að þetta skuli vera fastur þáttur að fulltrúi ÆSKR sæki mótið þó svo ekki sé gert ráð fyrir árlegri setu í skipulagsnefnd.

EYCE

ÆSKR er aðili að Ecumenical Youth Council in Europe (EYCE) og hefur haft þá venju að skipa meðlim úr æskulýðsráði sem sérstakan tengilið. Fulltrúafundur EYCE var haldinn í Október í Austurríki. Tveir fulltrúar ÆSKR sóttu fundinn, þær Andrea Ösp Andradóttir formaður æskulýðsráðs og tengiliður við EYCE og Hafdís Ósk Baldursdóttir. Fundurinn var gagnlegur og kom fram að þátttaka Íslands þykir eftirsóknarverð.

Jólaball í Skautahöllinni

Í byrjun desember bauð ÆSKR æskulýðsfélögum í Skautahöllina í Lagardal þar sem börn og leiðtogar skautuðu og áttu samfélag saman. Þetta var annað árið sem boðið er upp á þennan viðburð og hefur hann verið gríðarlega vinsæll og vel sóttur. Þetta meðal fjölmennustu viðburðum ÆSKR á eftir æskulýðsmótum.

Febrúarmót

Febrúarmót ÆSKR var haldið í Vatnaskógi helgina 24.-26. Febrúar og var svefnpláss Birkiskála Vatnaskógar fyllt. Að venju var dagskráin á mótinu bæði fjölbreytt og skemmtileg, en meðal annars voru haldnar kvöldvökur, diskótek, atriðakeppni og spurningakeppni æskulýðsfélaganna. Fræðsluerindi fluttu Hafdís Ósk Baldursdóttir og Hjörtur Freyr Sæland um verkefnið Haven Rescue Home í Nairobí Kenýa sem er íslenskt heimili fyrir ungar unglingsmæður sem aðstoðar þær við umönnun ungbarna sinna og býður þeim tækifæri til að mennta sig búa sér góða framtíð. Þau önnuðust einnig sjoppu á mótinu þar sem allur ágóði rann til styrktar heimilisins. Mótið gekk vel þrátt fyrir erfiða færð á föstudegi þegar mikill stormur gekk yfir landið og á sunnudegi þegar metsnjókoma lokaði öllum vegum á suðvesturhorninu og seinkaði því heimferð nokkuð.

Farskóli leiðtogaefna

Farskóli Leiðtogaefna er samstarfsverkefni ÆSKR, ÆNK, ÆSKÞ og fræðslusviðs Biskupsstofu. Skólastjóri Farskólans veturinn 2016-2017 var Jónína Sif Eyþórsdóttir. Farskólinn hefur fest sig í sessi í starfi kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu og víðar, enda metnaðarfullt og gott starf sem fer fram í skólanum. Í skólanum eru unglingar úr æskulýðsfélögunum sem aðstoða við barna- og unglingastarfið í söfnuðunum. Farskólinn gekk vel og í vetur var metþátttaka og þann 13. mars útskrifuðust 27 ungmenni frá farskólanum á hátíðlegri lokasamveru í Neskirkju þar sem fulltrúar frá aðstandendum skólans útskrifuðu nemendurna og var mikill fjöldi gesta viðstaddur.

TTT skemmtun

Haldin var skemmtun fyrir TTT hópa 7. mars í Neskirkju. Það nýjung í starfi ÆSKR að styrkja TTT starf á höfuðborgarsvæðinu. Við teljum það mikilvægt og sjáum mikla eftirspurn eftir sameiginlegum viðburðum fyrir þennan aldurshóp. Síðasta vetur var fyrsta TTT mót ÆSKR haldið
og tókst það mjög vel. Þetta árið var ákveðið að halda skemmtun fyrir þessa hópa sem í leiðinni væri upphitun fyrir TTT mót ÆSKR í Vatnaskógi. Viðburðinum var tekið gríðarlega vel og var mikill fjöldi þátttakenda. Boðið var upp á veitingar, skemmtiatriði frá leiðtogum og börnum og dansiball. Þessi viðburður verður endurtekinn en til greina kemur að færa hann yfir á haustönn.

TTT mót

TTT mót ÆSKR í Vatnaskógi var haldið 24.-25. mars. Þetta var annað skiptið sem ÆSKR heldur slíkt mót. Fyrsta mótinu var vel tekið og þátttaka fór fram úr væntingum. Í vetur var mótið enn stærra það bókstaflega sprakk út, þátttaka tvöfaldaðist milli ára og er orðið jafn fjölmennt og Febrúarmótið. Þessi viðburður er enn í þróun og þessi mikla fjölgun milli ára kallar á meiri og stærri umgjörð en gert var ráð fyrir. Þróun mótsins heldur því áfram en ljóst er að það er komið til að vera. Mótið heppnaðist gríðarlega vel og voru bæði börn og leiðtogar ánægðir með ferðina og staðráðin í að koma aftur næst.

Samráðsfundir leiðtoga

Haldnir voru fjórir samráðsfundir leiðtoga yfir veturinn. Fundirnir voru haldnir á þriðjudags og fimmtudagsmorgnum í Neskirkju. Mæting er misjöfn en þau aukning frá fyrri árum. Fundirnir eru mjög gagnlegir en gott væri að ennþá fleiri hefðu tök á að mæta þess vegna gott ef prestar og söfnuðir hvetji sitt æskulýðsstarfsfólk til þátttöku og geri ráð fyrir því í starfshlutfalli þeirra.

Starf með þroskahömluðum

ÆSKR hefur ásamt presti fatlaðra og Grensáskirkju staðið fyrir starfi með þroskahömluðum. Starfið fer fram í Grensáskirkju annan hvern fimmtudag. Þetta er 12. veturinn sem boðið er upp á þetta starf og hafa 30 og 40 manns hafa að jafnaði sótt samverurnar í vetur. Samverurnar hefjast með kaffispjalli og síðan er gengið til kirkju þar sem fram fer fræðsla, söngur og bæn. Umsjón með starfinu hafa Æskulýðsfulltrúi ÆSKR, sr. Guðný Hallgrímsdóttir og Þorvaldur Halldórsson.

30 ára afmæli ÆSKR

Árið 2018 eru liðin 30 ár frá stofnun ÆSKR. Gert er ráð fyrir að halda upp á tilefnið en skipulagning fer að stað í haust.

Andrea Ösp Andradóttir Kristján Ágúst Kjartansson
f.h. æskulýðsráðs ÆSKR Framkvæmdarstjóri ÆSKR