Gamlinginn! Tónleikar í Seljakirkju

Gamlinginn! Tónleikar í Seljakirkju

Í áratugi hefur íslenska Þjóðkirkjan staðið fyrir orlofsbúðum eldri borgara, en síðustu 13 ár hafa þær verið haldnar á Löngumýri í Skagafirði. Gestirnir sem koma af landinu öllu, eru frá sextugu og uppúr.

Næsta sumar verður í boði  fimm og sex daga orlofsdvöl fyrir fjóra 30 manna hópa. Eldriborgararáð Reykjavíkurprófastsdæmanna ásamt Ellimálanefnd þjóðkirkjunnar hafa staðið að orlofinu.

Það er mikið kærleiksverk að gefa eldri borgurum, einangruðum og sjúkum möguleika á slíkri dvöl. Flestir skjólstæðingarnir bíða allt árið eftir því að komast í sæluna í Skagafirði. Stór hópur gestanna getur ekki, vegna líkamlegra eða andlegra veikinda farið neitt annað sér til upplyftingar en í þetta verndaða umhverfi sem við bjóðum upp á á Löngumýri. Þar er aðstaða og aðgengi mjög gott og öll dagskráin tekur mið af því að allir geti tekið þátt. Meðal gestanna myndast varanleg vinabönd og þannig rjúfum við einangrun margra. Þakklætið og ánægjan geislar af hverjum og einum að dvöl lokinni. Það er mikið kappsmál að þetta frábæra framtak þjóðkirkjunnar eflist og dafni.

Dvalargestir greiða sjálfir sitt dvalargjald, en það er öllum ljóst að margir eldri borgarar búa við verulega fjárhagserfiðleika.  Eldriborgararáð hefur því reynt  eftir fremsta megni að afla styrkja til að greiða niður dvalarkostnað gesta okkar.  Reykjavíkurprófastsdæmin og þeirra söfnuðir hafa öll árin lagt okkur til fjármagn í þetta góða verkefni.  En betur má ef duga skal. Nú höldum við í þriðja sinn fjáröflunartónleikana GAMLINGINN !! Landsþekktir listamenn koma fram á tónleikunum og allir sem einn gefa vinnuna sína. Tónleikarnir fara fram í Seljakirkju miðvikudaginn 2. mars og hefjast þeir kl. 20:00.

Miðaverð er 3.500.- Miðar seldir við innganginn. Allur ágóði tónleikanna verður nýttur til að niðurgreiða dvalargjaldið á Löngumýri.