Héraðsfundur haldinn í Digraneskirkju 17. maí samþykkir ályktun

   Ályktun

 

 

Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, haldinn í Digraneskirkju 19. maí, 2015 beinir því til innanríkisráðherra, fjármálaráðherra og fjárlaganefndar Alþingis að upphæð sóknargjaldsins fyrir árið 2015 verði leiðrétt í samræmi við tillögur nefndar innanríkisráðherra, sem falið var að meta áhrif niðurskurðar sóknargjaldsins á starfsemi Þjóðkirkjunnar og skilaði niðurstöðum sínum vorið 2014.

Krefst fundurinn þess, að mismunun sú sem fram kemur í skýrslunni verði leiðrétt með því að sóknargjaldið, sem hver gjaldandi greiðir á mánuði, verði á árinu 2016 hækkað í a.m.k. kr. 958, en til þess að því marki verði náð þarf fjárframlagið að hækka um u.þ.b. 276 milljónir króna frá því sem er á yfirstandandi ári. Í framhaldinu verði umframskerðingin miðað við aðra aðila síðan jöfnuð að fullu árið 2018 og að árið 2019 verði lögum um sóknargjald síðan fylgt að öllu leyti.

 

Greinargerð:

Niðurstaða nefndar innanríkisráðherra er mjög skýr um það, að sóknargjaldið hafi verið skorið niður langt umfram þann niðurskurð sem aðrir aðilar hafa mátt þola vegna efnahagshrunsins. Kemur þannig fram í gögnum þeim sem nefndin hefur aflað, að niðurskurður á þessum tekjum trúfélaganna er tvöfalt meiri, en meðaltal þess niðurskurðar sem aðrir aðilar sem heyra undir fjárlög, hafa mátt sæta. Er trúfélögunum því í ár ætlað að reka starfsemi sína fyrir krónutölu (824 kr.) sem er 5,5% lægri en hún var árið 2008 eða fyrir 7 árum (872 kr.). Á það skal bent, að á þessum tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 51,3% og þá um leið allur tilkostnaður og sum lán raunar miklu meira. Þarf því varla að undra þótt víða stefni í þrot. Einnig skal á það bent að heildarskerðing sóknargjaldanna nemur nú rúmlega 4,5 milljarði kr.

Fram hefur komið bæði í skýrslunni og í ýmsum ummælum ráðamanna, að mistök hafi átt sér stað varðandi þessa gríðarlegu skerðingu, þar sem láðst hafi að verðbæta sóknargjaldið með sama hætti og gert var með framlög til þeirra stofnanna sem eru á fjárlögum. Því hafi verið brotið á trúfélögunum og jafnræðisreglan ekki virt.