Fjölmennt og góðmennt á Landsmóti

Íbúum Egilsstaða mun fjölga um fjórðung um helgina þegar Landsmót Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar verður haldið þar í bæ. Rúmlega 600 unglingar af öllu landinu auk fjölda leiðtoga og sjálfboðaliða þátt í mótinu sem er það næst fjölmennasta til þessa. Unglingarnir eru allir eru virkir í æskulýðsstarfi kirkjunnar og þau koma á landsmót til að skemmta sér og fræðast, uppbyggjast í trúnni og láta gott af sér leiða. Það má því segja að á landsmótinu á Egilsstöðum verði bæði fjölmennt og góðmennt um helgina.

Akurinn vökvaður

H2Og – brunnar sem bjarga
Yfirskrift Landsmótsins 2012 er H2Og. Það vísar til þess að unglingarnir ætla að safna fé fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Chikwawa héraði í Malaví. Þar er lífsafkoma afar erfið og aðgangur að hreinu vatni takmarkaður og jafnvel enginn. Með því að grafa brunna sem gefa hreint vatn gefst íbúum héraðsins tækifæri til betra lífs.

Krakkarnir á Landsmótinu ætla að safna fé sem dugar til að grafa að minnsta kosti einn brunn ásamt því að geta keypt grænmetisfræ, geitur og hænur handa þeim sem verst eru staddir.

Landsmótslagið á Tónlist.is
Hægt er að kaupa landsmótslagið Mulungu með hljómsveitinni Tilviljun? á vefnum Tónlist.is (http://www.tonlist.is/Music/Album/962257/tilviljun/mulungu_-_landsmotlag_2012/). Allur ágóði af sölu lagsins rennur til verkefnanna í Malaví.

Góðir gestir og spennandi dagskrá
Góðir gestir frá Malaví, þau Innocent og Donai, heimsækja Landsmótið og taka þátt í dagskránni. Þau munu koma að fræðslustund á laugardegi, en undanfarnar vikur hafa þau ferðast um landið og hitt fermingarbörn. Dagskrá verður fjölbreytt að vanda, haldið verður sundlaugarpartý og búningaball og boðið upp á ýmiss konar starf í hópum.

Nánar
Myndum og fréttum af landsmótinu verður miðlað á kirkjan.is og á síðum kirkjunnar á facebook og á twitter.com/kirkjan.