Hér birtist auglýsing um tilnefningu til biskups Íslands og framlagningu kjörskrár vegna kosningar biskups sbr. 9. og 11. gr. starfsreglna um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa nr. 9/2021-2022.
Hver vígður maður sem kosningaréttar nýtur samkvæmt starfsreglum um kosningu biskups Íslands o.fl. hefur rétt til að tilnefna til biskups allt að þrjá einstaklinga sem uppfylla skilyrði til kjörs biskups Íslands.
Kjörgengur til biskups Íslands er hver guðfræðikandídat sem fullnægir skilyrðum til þess að gegna prestsembætti í íslensku þjóðkirkjunni.
Tilnefning til biskups Íslands hefst kl. 12:00 hinn 1. febrúar 2024 og lýkur kl. 12:00 hinn 6. febrúar 2024.
Tilnefningin fer fram með rafrænum hætti, sjá https://kirkjan.is/kosning
Rétt til tilnefningar til biskups hafa vígðir einstaklingar sem kosningaréttar njóta í biskupskosningu, þ.e.:
· Biskup Íslands og vígslubiskupar
· Þjónandi prestar og djáknar íslensku þjóðkirkjunnar eða hjá íslenskum söfnuði þjóðkirkjunnar erlendis sem eru í föstu og launuðu starfi
· Þjónandi prestar og djáknar sem lúta tilsjónar biskups Íslands og eru í föstu og launuðu starfi á vegum stofnunar og/eða félagasamtaka hér á landi
· Prestar og djáknar í tímabundnu leyfi, allt að tveimur árum. Djákni skal vera ráðinn til a.m.k. eins árs eða ótímabundið
· Prestur sem settur er til þjónustu tímabundið nýtur ekki kosningaréttar nema í þeim tilfellum þar sem ekki er skipaður prestur fyrir
· Vígðir starfsmenn þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar sem eru í föstu starfi
Prestar og djáknar sem látið hafa af þjónustu njóta ekki kosningaréttar.
Áætlað er að kosning biskups Íslands, að loknu tilnefningaferli, hefjist kl. 12:00 hinn 7. mars 2024 og ljúki kl. 12:00 hinn 12. mars 2024.
Kosningarétt við kjör biskups hafa vígðir annars vegar og leikmenn hins vegar, sbr. nánar 4. gr. starfsreglna um kosningu biskups Íslands o.fl.
Viðmiðunardagur skilyrða kosningaréttar var 11. janúar 2024.
Kjörskrá vegna kosningar biskups Íslands er lögð fram 18. janúar 2024 og birtist á vef Þjóðkirkjunnar.
Kjósandi getur þá kannað á þar til gerðu vefsetri https://kirkjan.is/kjörskra hvort nafn hans er á kjörskrá við biskupskjör.
Við aðgang að vefsetrinu er notuð almenn innskráningarþjónusta, svo sem rafræn skilríki eða Íslykill.
Athugasemdir vegna kjörskrárinnar skulu berast kjörstjórn eigi síðar en fimm sólarhringum áður en tilnefningar hefjast eða fyrir kl. 12.00 hinn 27. janúar 2024.
Athugasemdir skulu sendar á netfangið kirkjan@kirkjan.is
Reykjavík, 16. janúar 2024
f.h. kjörstjórnar þjóðkirkjunnar
Anna M. Karlsdóttir, formaður.