Skýrsla prófasts

  Reykjavíkurprófastsdæmi eystra 2018-19

Inngangsorð

Þegar við komum saman til þessa 29. héraðsfundar Reykjavíkurprófastsdæmis eystra og lítum um öxl yfir liðið starfsár þá blasir það við, að þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður og oft lítil efni hefur víða verið vel unnið og af miklum fúsleika og dugnaði. Vil ég því enn og aftur fá að nota þetta tækifæri til að þakka það dugmikla og fórnfúsa starf, sem ég hef orðið vitni að í heimsóknum mínum í söfnuði prófastsdæmisins. Og í þessu sambandi vil ég minna okkur öll á hinn stórkostlega fagnaðarboðskap sem fólginn er í eftirfarandi boðskap sálmaskáldsins forna:

„Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonarfjall,

það bifast eigi, stendur að eilífu.

Eins og fjöllin umlykja Jerúsalem

umlykur Drottinn lýð sinn

héðan í frá og að eilífu.“ (Sálm. 125:1-2)

Það er stórkostleg mynd sem höfundur sálmsins dregur hér upp af því hvernig náð Drottins og kærleikur umlykur okkur með sama hætti og fjöllin sem við okkur blasa í náttúrunni. Fjöllin geta því m.ö.o. að vera okkur áminning um vernd Drottins og umhyggju, sem aldrei bregst. Látum þessi orð sálmaskáldsins vera okkur til uppörfunar og hvatningar þegar við höldum til móts við nýtt starfsár og göngum fram í þeirri fullvissu, að fyrirheiti hans standi að eilífu og séu vörn okkar og styrkur á hverju sem gengur. Við skulum því enn á ný ákalla nafn hans og biðja hann að styrkja okkur til þjónustunnar, efla samstarf okkar og samstöðu, og auka okkur fúsleika og djörfung til eftirfylgdar við hann á komandi starfsári.

Ég mun nú í þessari skýrslu, fyrir hönd héraðsnefndarinnar, leitast við, að nefna það helsta, sem gerst hefur í starfi prófastsdæmisins á síðasta starfsári, um leið og horft er til þess sem framundan bíður.

Starfið í söfnuðunum 

Helstu tölur um helgihald í prófastsdæminu árið 2018, skv. starfsskýrslum presta, eru sem hér segir, (tölur frá 2017 eru í sviga): Almennar guðsþjónustur 604 (590), barnaguðþjónustur 349 (363), aðrar bæna- og helgistundir 1282 (1265). Guðsþjónustur voru því samtals 2235 (2218).  Viðstaddir þessar guðsþjónustur voru alls 91.899 (96.789). Fermingarbörn voru 954 (897) og altarisgestir 23.779 (21.205). Þá voru skírð 568 (607) börn, hjónavígslur voru 236 (261) og útfarir 427 (407). Ekki er að sjá að um umtalsverðar breytingar milli ára sé að ræða á þessu tölum nema þá helst á fjölda skírna sem virðist fara heldur lækkandi.

Þar sem engu hefur enn verið breytt varðandi starfs- og messugjörðarskýrslur presta í þá veru að þær gefi gleggri mynd af umfangi kirkju- og safnaðarstarfsins höfum við haldið áfram þeirri reglubundnu talningu á völdum þáttum starfsins í prófastsdæminu sem við tókum upp fyrir tíu árum og verður henni haldið áfram þar til endurbætur hafa verið gerðar á messugjörðarskýrslunum.

Samkvæmt þessari talningu tóku alls 258.332 (208.405) manns þátt í þeim liðum safnaðarstarfsins sem talið var í árið 2018 og er þar þó ýmislegt undanskilið, eins og t.d. kórastarfið, fermingarfræðslan og fundir og samverur af ýmsu tagi. Er hér um verulega fjölgun að ræða frá síðasta ári eða u.þ.b. 24%. Munar þar mestu, að töluverð fjölgun varð á útförum. Meðalþátttakan í messum, sem fram fóru á árinu 2018 var 92,1 manns, en var 90,9 árið áður.

Samstarf innan hinna þriggja samstarfssvæða í prófastsdæminu hefur heldur verið að aukast eftir því sem árin líða og tel ég það varða miklu fyrir framtíð starfsins innan prófasts-dæmisins, að við leggjum áherslu á starfið á samstarfssvæðunum og leitum þannig allra leiða til að efla starf kirkjunnar með margvíslegu samstarfi og verkaskiptingu, þegar það á við. Eins og undanfarin ár gerir héraðsnefndin tillögu um, að á fjárhagsáætlun næsta árs verði sérstök fjárveiting til samstarfssvæðanna og er hún að þessu sinni 1.575.000 kr.

Lítið sem  ekkert hefur verið um byggingarframkvæmdir á síðustu árum, enda hefur viðhald eða endurbætur á húsnæði safnaðanna því miður verið í algjöru lágmarki vegna niðurskurðar sóknargjaldsins mörg undanfarin ár. Ekki hefur enn tekist að hefja framkvæmdir við viðbyggingu safnaðarheimilis Árbæjarkirkju, en þó hefur loks fengist framlag úr jöfnunarsjóði til að hefja undirbúning að þessum framkvæmdum og er nú verið að endurskoða teikningar. Þá er hafinn undirbúningur á viðgerðum á þaki Breiðholtskirkju sem vonandi mun ljúka á næsta ári. Einnig var sett upp hjólastólalyfta við stiga milli hæða og var hún fjármögnuð með allmennri fjársöfnun. Þá hafa umfangsmiklar viðgerðir átt sér stað á Kópavogskirkju, en þar var viðhaldsþörfin orðin mjög brýn, bæði á rafkerfi, gluggum og vegna lekaskemmda. Er viðgerð á gluggum á suðurhlið kirkjunnar nú lokið og verður gluggaviðgerðunum vonandi fram haldið á næsta ári. Einnig hefur flóðlýsing kirkjunnar verið endurnýjuð og var sú framkvæmd að mestu fjármögnuð af Kópavogsbæ. Loks skal þess getið að 9. desember var tekið í notkun nýtt pípuorgel í Guðríðarkirkju og er það smíðað af Björgvini Tómassyni, orgelsmið.  

Ráðstefnur, námskeið, fræðslustarf o.fl.

Að venju var boðið upp á ýmiskonar fræðslustarf á vegum prófastsdæmisins á liðnu starfsári og skal það helsta nefnt hér:

26. janúar var fræðsludagur prófastsdæmisins í Digraneskirkju þar sem starfsfólk biskupsstofu fjallaði m.a. um líðan og starfsánægju starfsfólks kirkjunnar, fjölmiðla og samskipti kirkjunnar við þá og persónuverndarmál og meðferð persónuupplýsinga.

20. mars sl. efndi prófastsdæmið til fræðslufundar um sorg og áföll í skólastarfi. Fundurinn var haldinn í Grafarvogskirkju og var skólastjórum, deildarstjórum, námsráð-gjöfum og öðrum sem málið varðar í grunnskólum Grafarvogs og Borgarholtsskóla sérstaklega boðið að sækja fundinn. Var hann vel sóttur og vakti mikla ánægju. Fyrirhugað er að halda hliðstæða fundi í Kópavogi og Breiðholti á komandi starfsári.

Prédikunarklúbbur presta hefur komið saman vikulega yfir vetrartímann undir leiðsögn dr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, héraðsprests og sömuleiðis var ein sólahrings-samvera í Skálholti. Þá sá dr. Sigurjón einnig um vikulega biblíulestra í Breiðholtskirkju. Stóðu þeir samtals yfir í 20 vikur. Einnig hefur dr. Sigurjón Árni boðið upp á ýmsar fræðslusamverur eins og t.d. fræðslunámskeið fyrir sóknarnefndir og heimsóknir í félagsstarf aldraðra.

Fermingarnámskeið voru í Vatnaskógi á vegum allra safnaðanna í samvinnu við Skógarmenn KFUM. Er þar bæði um að ræða dags námskeið auk hefðbundinna námskeiða með einnar nætur gistingu.

Þá hefur verið leitast við að miðla upplýsingum milli safnaðanna um þau margvíslegu námskeið sem þar eru haldin og einnig hafa verið námskeið í samstarfi við nágranna-prófastsdæmin. Má þar t.d. nefna námskeið fyrir kirkjuverði og aðra starfsmenn safnaðanna og námskeið fyrir sóknarnefndarfólk. Fræðslunefnd prófastsdæmisins skipa þau sr. Bryndís Malla Elídóttir, sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir og dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson.

            Þá skal á það minnt, að söfnuðunum standa jafnan til boða eldvarnarnámskeið, framsagnarnámskeið og námskeið í skyndihjálp á vegum prófastsdæmisins og eru þau einkum ætluð starfsfólki og sjálfboðaliðum safnaðanna.

Fundir, aðrar samverur o.fl. 

Héraðsfundur var síðast haldinn í Guðríðarkirkju 30. maí 2018 og aukahéraðsfundur í Breiðholtskirkju 31. október. Héraðsnefnd prófastsdæmisins, hefur að jafnaði haldið einn fund á mánuði og voru þeir alls 11 á starfsárinu. Að auki héldu héraðsnefndirnar í eystra og vestra prófastsdæminu einn sameiginlegan fund. Í héraðsnefnd sitja nú sr. Gunnar Sigurjónsson og Benedikta G. Waage, en varamenn þeirra eru sr. Guðrún Karls Helgudóttir og Guðrún Hulda Birgis. Það skal tekið fram að bæði aðal- og varamenn eru boðaðir á alla fundi. Þá eiga prófastarnir í Reykjavíkurprófastsdæmunum og Kjalarnes-prófastsdæmi reglulega með sér fundi þar sem við ræðum sameiginleg málefni prófastsdæmanna.

Samráðsfundir presta og djákna voru þrír á starfsárinu og sömuleiðs voru haldnir þrír formannafundir og var einn þeirra sólarhringsfundur í Skálholti.

Auk þeirra funda sem hér hafa verið nefndir, hefur prófastur setið margvíslega fundi á starfsárinu um málefni ÆSKR, Eldriborgararáðs, Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, Kirkjugarða Reykjavíkur og Kirkjugarðasambands Íslands, svo eitthvað sé nefnt.

Einnig átti hann allmarga fundi með biskupi Íslands, öðrum próföstum, félagsmála-yfirvöldum o.fl., auk margvíslegra nefndarstarfa. Sömuleiðis stjórnaði prófastur kjörnefndar-störfum í Grafarholtsprestakalli.

Þá lauk prófastur á starfsárinu þeirri vísitasíu í söfnuðum prófastsdæmisins sem hófst vorið 2018 og átti í tengslum við hana starfsgæðaviðtöl með prestum og djáknum og sat samráðsfundi með sóknarnefndum og starfsfólki sóknanna. Þá kannaði prófastur einnig aðgengi hreyfihamlaðra að húsnæði safnaðanna og gerði tillögur um lagfæringar þar sem það átti við.

Þess skal einnig getið undir þessum lið, að biskup Íslands heldur árlega prófastafund, sem að þessu sinni var um miðjan janúar. Gefst þar gott tækifæri til að ræða ýmis málefni, sem varða starf kirkjunnar og prófastsdæmanna. Kom þar m.a. fram, að vígslubiskup í Skálholti hyggst vísitera Reykjavíkurprófastsdæmi eystra í nú í vor og í haust og hefst vísitasían í Kópavogskirkju á uppstigningardag, 30. maí.

Einnig hefur Prófastafélagið haldið haustfundi þar sem prófastar hafa ásamt biskupi skoðað ýmis sameiginleg mál er varða skipulag, nýjungar í starfi o.fl. Að þessu sinni var fundurinn haldinn í Skúlagarði í Kelduhverfi.

Að lokum má geta þess undir þessum lið, að prófastsdæmið hefur í mörg undanfarin ár staðið fyrir mánaðarlegum Tómasarmessum í Breiðholtskirkju í samvinnu við ýmsa kirkjulega aðila.

Breytingar á starfsliði

Óvenju litlar breytingar hafa orðið í hópi presta og djákna í prestaköllum prófasts-dæmisins á starfsárinu:

  Sr. Leifur R. Ragnarsson var skipaður prestur í Grafarholtsprestakalli frá 1. júlí 2018, en hann hafði áður þjónað prestakallinu um tæplega eins árs skeið í námsleyfi sr. Karls V. Matthíassonar. Þá var starfsaðstaða sr. Toshiki Toma færð frá Hjallakirkju í Breiðholts-kirkju haustið 2018, en sr. Toshiki heyrir samt sem sérþjónustuprestur formlega undir tilsjón prófastsins í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Þjónandi djáknar í prófasdæminu eru nú fjórir, auk framkvæmdastjóra Eldriborgararáðs, en voru þegar best lét 7. Þjónandi prestar eru hins vegar 23 í 22,5 stöðugildum. Flestir voru prestarnir í prófastsdæminu skömmu fyrir hrun er þeir voru að jafnaði 24. Það er því ljóst að enn höfum við varla náð sama þjónustustigi og þá var. Er það mikið áhyggjuefni hversu seint sækist að ná þeim embættum til baka sem horfið hafa á braut.

Sameiginlegt starf Reykjavíkurprófastsdæma o.fl.

          Megin verkefni Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma (ER) er styðja við kirkjustarf eldri borgara í söfnuðunum. Er það m.a. gert með margvíslegum námskeiðum og samráðsfundum fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða safnaðanna, og með því að skipuleggja og sjá um ýmiskonar sameiginlega viðburði fyrir þennan aldurshóp. Þá hefur ráðið staðið fyrir sumardvöl fyrir aldraða á Löngumýri í samráði við Ellimálanefnd kirkjunnar. Hefur aðsókn stöðugt verið að aukast og eru yfirleitt biðlistar í dvalarhópanna þótt þeim hafi á undanförnum árum verið fjölgað úr þremur í sex. Framkvæmdastjóri Eldriborgararáðs er Þórey Dögg Jónsdóttir, djákni og hefur hún aðsetur í Breiðholtskirkju.

Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum (ÆSKR) býður sömuleiðis upp á fjölbreytt starf bæði fyrir leiðtoga og unglinga í æskulýðsfélögum safnaðanna og sömuleiðis í TTT starfinu. Þá hefur ÆSKR í gengum tíðina verið falin umsjón með ýmsum verkefnum og þjónustu í æskulýðsmálum kirkjunnar og þá oft í samvinnu við ÆSKÞ. Er sambandið þannig t.d. mikilvægur framkvæmdaaðili að starfi Farskóla leiðtogaefna, sem útskrifaði 12 ungmenni við hátíðlega athöfn í Grensáskirkju 27. mars sl. Framkvæmdastjóri ÆSKR er Kristján Ágúst Kjartansson og hefur hann aðsetur í Grensáskirkju.

Starfsemi Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma er bæði viðamikil og fjölþætt eins og glögglega kemur fram í árskýrslu garðanna. Það hefur þó skapað starfseminni mikinn vanda, að niðurskurður lögbundinna framlaga til kirkjugarða á undanförnum árum hefur leitt til þess að grípa hefur orðið til verulegra aðhaldsaðgerða, sem m.a. hafa leitt til fækkunar starfsfólks, frestunar á brýnum viðhaldsverkefnun og skertrar þjónustu. Prófastarnir í Reykjavíkurprófastsdæmunum sitja fundi framkvæmdanefndar kirkjugarðanna sitt hvort árið og hefur prófasturinn í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra setið þessa fundi á sl. starfsári.

Prófastsdæmið hefur til fjölda ára stutt Fjölskylduþjónustu kirkjunnar með verulegum fjárframlögum, enda um ákaflega mikilvæga þjónustu kirkjunnar að ræða. En nú hefur sú breyting orðið á að rekstur Fjölskylduþjónustunnar hefur alfarið verið færður á ábyrgð Kirkjumálasjóðs. Er því ekki lengur leitað eftir stuðningi héraðssjóðs og er því ekki gert ráð fyrir fjárframlagi til þessa verkefnis á fjárhagsáætlun fyrir árið 2020.

Þá vil ég geta þess, að prófastsdæmið hefur styrkt starf Hjálparstarfs kirkjunnar með allmiklum framlögum, eins og fram kemur í ársreikningi, enda hefur lítið dregið úr umsókn-um um aðstoð og er því gert ráð fyrir áframhaldandi stuðningi á næsta ári..

Einnig vil ég nefna hér, að Reykjavíkurprófastsdæmin hafa til margra ára staðið fyrir sameiginlegri messuþjónahátíð að vori og þannig viljað láta í ljós örlítinn þakklætisvott fyrir trúfasta þjónustu messuþjónanna. Verður hátíðinn að þessu sinni í Grafarvogskirkju n.k. fimmtudag 23. maí kl. 20. Sömuleiðis má nefna sem samstarfsverkefni áðurnefnd námskeið fyrir fermingarbörn í Vatnaskógi.

Að lokum vil ég svo undir þessum lið geta þess, að sr. Toshiki Toma, prestur inn-flytjenda, hefur síðustu árin haft fasta starfsaðstöðu í prófastsdæminu. Skrifstofa hans hefur nú, eins og áður er getið, verið færð í Breiðholtskirkju og hefur hann haft þar viðtalstíma, helgihald og annað starf, auk þess sem hann hefur annast ákveðna starfsþætti í öðrum kirkjum eins og t.d. Háteigskirkju og Keflavíkurkirkju. Myndast hefur vísir að nýjum söfnuði, Alþjóðlega söfnuðinum í Breiðholtskirkju, og hafa sr. Toshiki og sóknarnefnd Breiðholts-kirkju undirritað viljayfirlýsingu um aukið samstarf sem hefur verið samþykkt af biskupi Íslands og styrkt af kirkjuráði. Er þar m.a. gert ráð fyrir að þróuð verði kirkjuleg þjónusta fyrir flóttafólk á höfuðborgarsvæðinu og einnig fyrir innflytjendur í Breiðholti og nágrenni þess. Er það von mín að með sameiginlegu átaki okkar í prófastsdæminu megi takast að efla og styrkja þetta mikilvæga starf, sem þegar er að verða einn helsti vaxtarbroddurinn í starfi þjóð-kirkjunnar.

Sjóðir, samskipti við Reykjavíkurborg o.fl.

Stjórn Starfssjóðs safnaðarhjálparinnar í Reykjavíkurprófastsdæmum mun koma saman til fundar á næstu vikum og ræða breytta stöðu sjóðsins í ljósi þess að tekjur sjóðsins hafa dregist mjög saman í kjölfar bankahrunsins. Ekki er því enn ljóst hvort úthlutað verður úr sjóðnum að þessu sinni, en á síðasta ári var aðeins um eina úthlutun að ræða til sumardvalar aldraðra á Löngumýri.

Samkvæmt ákvörðun kirkjuráðs um úthlutun úr Jöfnunarsjóði sókna árið 2019koma 72,5 milljónir kr. í hlut sjö sókna í prófastsdæminu, en árið áður fengu fimm sóknir alls 47 milljónir kr. og Kópavogskirkja fékk síðan aukaframlag upp á 20 milljónir. Er því um nokkra aukningu að ræða miðað við fyrri ár og þá sérstaklega vegna viðgerða á Kópavogskirkju og Breiðholtskirkju. Þá fékk Árbæjarsókn í fyrsta sinn framlag úr sjóðnum til undirbúnings vegna stækkunar á safnaðarheimilinu sem lengi hefur verið í bígerð. Vakin skal athygli á því, að umsóknir um styrki úr Jöfnunarsjóði og öðrum sjóðum kirkjunnar vegna ársins 2019 þurfa að hafa borist biskupsstofu í síðasta lagi 15. júní n.k.

Samstarfsnefnd Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurprófastsdæma hefur verið ekki komið saman á þessu kjörtímabili, enda hafa borgaryfirvöld lítinn áhuga haft á slíku samráði. Og ekki er lengur auglýst eftir umsóknum í Kirkjubyggingarsjóð Reykjavíkur endahafa borgaryfirvöld í raun lagt sjóðinn niður.

Fjárhagur sókna- og prófastsdæmis

            Því miður hafa ekki enn borist neinar áreiðanlegar fréttir af því að í vændum sé leiðrétting á þeirri gríðarlegu skerðingu sóknargjaldsins sem viðgengist hefur frá árinu 2009. Og það jafnt fyrir það, þótt viðurkennt hafi verið af stjórnvöldum, að sóknargjaldið hafi verið skorið niður langt umfram þann niðurskurð, sem aðrir aðilar hafa almennt mátt þola vegna efnahagshrunsins. Var jafnvel bætt um betur við samþykkt síðustu fjárlaga þar sem sóknargjaldið var lækkað í 925 kr. á mánuði fyrir hvern gjaldanda í stað 931 kr. á síðasta ári, en ætti skv. lögunum að vera 1650 kr., eða 725 kr. hærra á mánuði. Það munar vissulega um minna. Þessi skerðing, sem nemur nú um 44%, hefur haft verulega neikvæð áhrif á starf safnaðanna, prófastsdæmisins og kirkjunnar allrar enda er nú svo komið, að ákveðnir söfnuðir virðast vera að komast í þrot fjárhagslega og enn fleiri eru að vinna í því að segja upp starfsfólki eða lækka starfshlutfall og draga á annan hátt úr starfi sínu.

            Með fundargögnum fylgir yfirlit, sem ég hef tekið saman, um niðurskurðinn eins og hann hefur verið í hverjum söfnuði prófastsdæmisins fyrir sig. Kemur þar fram, að heildar-niðurskurðurinn í okkar prófastsdæmi frá árinu 2008 til og með ársins í ár nemur nú u.þ.b. 2,76 milljarði króna eða að meðaltali u.þ.b. 230 milljónum kr. á hverju ári. Og heildarniður-skurðurinn til allra safnaða Þjóðkirkjunnar nemur nú rúmlega 10,4 milljörðum kr. Það er því ákaflega brýnt, að viðræður við ríkisvaldið, um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju, verði til lykta leiddar sem allra fyrst og það á jákvæðan hátt fyrir kirkju og kristni í þessu landi.

Sameining prestakalla

Á síðasta kirkjuþingi voru m.a. samþykktar nokkrar tillögur um sameiningu prestakalla byggðar á tillögum biskupafundar, sem kynntar voru á sl. hausti.

Í ljósi þessara tillagna fórum fram nokkrar viðræður milli safnaðanna í Breiðholt um um aukið samstarf og hugsanlega sameiningu þeirra í eitt prestakall. Niðurstaðan varð sú að Seljasókn dróg sig út úr þessum viðræðum, en Breiðholtssókn og Fella- og Hólasókn hafa hinsvegar farið fram á það við biskupafund að á næsta kirkjuþingi verði flutt tilllaga um að prestaköllin tvö verði sameinuð í eitt.

Niðurlagsorð

Ég læt svo þessari skýrslu vera lokið með því að færa öllum þeim, sem komið hafa að starfinu í prófastsdæminu á sl. starfsári, innilegar þakkir. Það verður seint fullþakkað þeim mörgu, sem lagt hafa hönd að verki og gefið bæði af tíma sínum og kröftum til þjónustunnar í prófastsdæminu. Einnig vil ég þakka góðum Guði, sem hefur blessað starfið svo ríkulega á liðnum árum þrátt fyrir ytra mótlæti. Leggjum starfið allt í hans hendur. Hann vill styrkja okkur og leiða, því megum við treysta og það er náð hans og kærleiki sem öllu breytir og gefur okkur þann styrk og kraft, sem við þurfum á að halda til að starfa og þjóna í kirkju hans.

Gert í Reykjavík 21. maí 2019.

F.h. héraðsnefndar,

Gísli Jónasson, prófastur.