Dagbók úr orlofi eldri borgara á Löngumýri í Skagafirði

            Sumarið 2018 var farið með sex hópa á Löngumýri. Það var fullt í alla hópana  nema þann fyrsta og margir sem þurftu að sætta sig við að komast ekki með.

            Allir hóparnir lögðu upp frá Breiðholtskirkju og var ferðast með Hópferðarbílum Steins Sigurðssonar. Þetta fyrirtæki þjónustar okkur afskaplega vel og það er ákaflega hentugt að við höfðum rútuna aðeins fyrir okkur og getum látið hana stoppa þar sem okkur hentaði og þegar okkur hentaði. Og ekki skemmir fyrir að hann Steini, eigandi fyrirtækisins og okkar einkabílstjóri er með afskaplega ríka þjónustulund.

            Dagskrá allra hópanna var með sama sniði og markmið okkar var að engum leiddist og allir fengju eitthvað við sitt hæfi.

Morgunmatur er borinn fram á milli 8:30 og 10:00. Eftir morgunverð efst helgistund og að henni lokinni er boðið uppá létta stóla-morgunleikfimi og eftir það göngutúr um fallegar lendur Löngumýrar. Þá tekur við frjáls tími fram að hádegisverði. Að lokinni hádegis- síestu er samvera á sal þar sem við skemmtum okkur saman við allt mögulegt og ómögulegt. Miðdegiskaffi er drukkið á milli 15:00 og 15:30 og eftir það er samvera í setustofu. Eftir kvöldverð, fréttir og veður er svo kvöldvaka þar sem listamenn úr Skagafirði sjá um að skemmta gestum okkar.

            Allir hóparnir fara í samskonar eins dags menningarferð með Gunnar staðarhaldara á Löngumýri sem leiðsögumann. Þetta sumarið var ákveðið að ferðast um í næsta nágrenni Löngumýrar. Ferðirnar hófust kl. 13:00 og okkar fyrsta stopp var í sútunarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Sú heimsókn var mjög fróðleg og skemmtileg.  Þaðan var farið beinustu leið í Skagfirðingabúð þar sem eitt og annað týndist ofan í poka gesta okkar. Því næst lá leið okkar til hjónanna á Sólheimum þar sem okkur var sýnt eitt fullkomnasta róbótafjós á landinu. Að því loknu var komið að okkar síðasta stoppi sem var á Búminjasafninu á Lindabæ. Þar biðu okkar dýrindis veitingar og leiðsögn um safnið.

            Allir hóparnir nutu dvalarinnar á Löngumýri og flestir töluðu um að koma aftur að ári. Betri meðmæli er ekki hægt að fá.

Umsjón með orlofsbúðunum sumarið 2018 höfðu þær Anna Hulda Júlíusdóttir og Þórey Dögg Jónsdóttir. Þetta sumarið voru engir djáknanemar í þjálfun hjá Þóreyju Dögg.