Gamlinginn 2017, tónleikar í Bústaðakirkju

Í áratugi hefur íslenska þjóðkirkjan staðið fyrir orlofsbúðum eldri borgara, en síðustu 14 ár hafa þær verið haldnar á Löngumýri í Skagafirði. Gestirnir, sem koma af landinu öllu, eru frá sextugu og uppúr. Meðalaldur dvalagesta síðast liðið sumar var 88,5 ár.

Komandi sumar verða í boði  fimm og sex daga orlofsdvalir fyrir fimm 30 manna hópa. Eldriborgararáð Reykjavíkurprófastsdæmanna ásamt Ellimálanefnd þjóðkirkjunnar standa að orlofinu.

Dvalargestir greiða sjálfir sitt dvalargjald og til að gera sem flestum, óháð fjárhag, kleift að taka þátt í orlofsbúðunum er blásið til styrktartónleika. Yfirskrift tónleikanna er Gamlinginn 2017.

Tónleikarnir verða haldnir í Bústaðakirkju fimmtudagskvöldið 9. mars kl. 20:00. Verð á tónleikana er 3.500.- miðar seldir við innganginn og posi á staðnum. Allur ágóðinn rennur til þess að niðurgreiða dvalargjald þátttakenda.