Ánægjulegur fræðslufundur um umhverfismál í Digraneskirkju

Fyrsti fræðslu- kynningar- og samræðufundurinn með Ara Trausta Guðmundssyni, jarðvísindamanni og rithöfundi, um umhverfismál undir yfirskriftinni; ,,Veröld í vanda – leiðir til bjargar”, sem fram fór í Digraneskirkju miðvikudagsmorguninn 24. maí, var vel sóttur af prestum og forystufólki í þjóðkirkjunni og öðrum kristnum söfnuðum. Góður rómur var gerður að glöggum og upplýsandi málflutningi Ara Trausta. Hann gerði með sannfærandi rökum, ljósmyndum og línuritum vel grein fyrir stöðu loftslagsmála og hvert stefndi að óbreyttu, hlýnun jarðar, afleiðingum hennar og viðbrögðum til bjargar.  Hann fjallaði um geigvæna áníðslu lífríkisins og sóun náttúrugæða, en jafnframt um gildi endurvinnslu og nauðsyn gjörnýtingar hráefna er gæti orðið lykill að raunhæfri lausn frá yfirvofandi háska.

Samræður voru fjörlegar og mikilli ánægju lýst yfir því að efnt skyldi til slíkra fræðslufunda á vegum þjóðkirkjunnar.

Til stóð að fundurinn yrði sendur út á veraldarvefnum en því miður varð ekki úr því en upptaka er tiltæk hér. Hljóðgæði eru misgóð.

Næsti og annar fræðslufundurinn af þremur um umhverfismálin brýnu með Ara Trausta verður haldinn í Digraneskirkju miðvikudagsmorguninn kemur 1. júní. Hann  hefst sem fyrr með léttum morgunverði kl. 9.30 og mun standa fram til kl. 11.30. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.

Þá verður frætt og fjallað um: ,,Ferðaþjónustuna, þjóðgarða og náttúruvernd‘‘ og svo einnig  „Virkjanir, iðnað og orkuflutningsnet“.