Hugvísindaþing.

 

http://hugvis.hi.is/tru_von_og_thjod_sjalfsmynd_og_stadleysur

 

 

Trú, von og þjóð / Sjálfsmynd og staðleysur

Stofa 220 Háskóla Íslands

föstudaginn 13. mars
Kl. 15:00-17:00

Þegar notkun hugtakanna þjóð, þjóðerni og þjóðríki er skoðuð kemur í ljós litskrúðug og oft þversagnakennd mynd. Það fyrsta sem blasir við er að í krafti hugmyndarinnar um þjóð, þjóðerni og þjóðríki hefur tekist að fá fólk til að skilja og skilgreina sig sem eina heild. Í því sambandi er oft gripið til hugmynda sem eiga rætur að rekja til táknheims kristinnar trúar. Hugmyndin um þjóð gefur lífi einstaklingsins merkingu og trúarlegt hald. Til að styrkja hjálpræðisvissu þjóðarinnar er gripið til hugmynda um útvalningu, hugmynda um fyrirheitna landið, hina heilögu móður jörð og pólitískar frelsunarvonir.

Útgangspunktur málstofunnar er nýútkomin bók Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, Trú, von og þjóð / Sjálfsmynd og staðleysur. Málstofan byggist á erindum og viðbrögðum við þeim þar sem Sigurjón Árni mun taka þátt.

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði: Trú, þjóð og ríki
Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki: Staðleysur og samfélag
Soffía Auður Birgisdóttir​, sérfræðingur á Rannsóknarsetri H.Í. á Höfn í Hornafirði: Spámaðurinn Þórbergur Þórðarson og vald orðræðunnar
Sveinn Valgeirsson dómkirkjuprestur: Afstaðan til „ríkisvaldsins“ í nokkrum nýjatestamentistextum
Málstofustjóri: Ólafur Páll Jónsson dósent

Útdrættir:

Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði: Trú, þjóð og ríki

Fræðimenn hafa lengi velt fyrir sér tengslum trúar og þjóðernisstefnu. Þannig hefur því verið haldið fram að þjóðin sé hið ímyndaða samfélag nútímans, og að hún gegni því svipuðu hlutverki og samfélag trúaðra á fyrri tímum. Eins hefur verið bent á þá tilfinningu fyrir eilífu lífi sem þjóðernisstefnan vekur hjá fylgjendum hennar, sem og því tungutaki frelsunar sem þjóðernissinnar grípa oft til í málflutningi sínum. Í bókinni Trú, von og þjóð greinir Sigurjón Árni Eyjólfsson þau trúarlegu stef sem finna má í orðræðu þjóðernissinna og áhrif trúarhugmynda á þjóðernisstefnu – og áhrif þjóðernisstefnu á trúarhugmyndir íslenskrar þjóðkirkju. Í fyrirlestrinum verður lagt mat á greiningu Sigurjóns Árna og framlag hennar til rannsókna á íslenskri þjóðernisstefnu.

Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki: Staðleysur og samfélag

Flestir geta verið sammála um að eiginlegt samfélag sé grundvallað á einhverjum sameinandi þáttum. Það sammæli ristir hins vegar ekki djúpt. Ég mun víkja að nokkrum spurningum sem varða grundvöll samfélaga.

(i) Hverskonar þættir geta yfirleitt verið sameinandi, t.d. hvaða þættir eru samrýmanlegir lýðræðislegu og fjölmenningarlegu samfélagi?

(ii) Í krafti hvers eru sameinandi þættir í raun sameinandi?

(iii) Í hvaða skilningi geta hinir smeinandi þættir verið skuldbindandi (normatífir) fyrir líf samfélagsins?

Heimspekingar, sagnfræðingar, stjórnmálafræðingar og guðfræðingar hafa sett fram margvísleg svör við þessum spurningum. Ég mun einkum staldra við nokkur svör heimspekinga við fyrstu spurningunni og svo nokkur svör af guðfræðilegu tagi við þeirri þriðju, þar sem greinarmunurinn á lögmáli og fagnaðarerindi mun skipta máli, en Sigurjón Árni Eyjólfsson notar hann einmitt sem greiningartæki í bókinni Trú, von og þjóð / Sjálfsmynd og staðleysur.

Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur á Rannsóknarsetri H.Í. á Höfn í Hornafirði: Spámaðurinn Þórbergur Þórðarson og vald orðræðunnar

Lagt verður út af kaflanum „Túlkunarvaldið og íslensk menning“ í bók Sigurjóns og sérstaklega hugað að myndinni af spámanninum Þórbergi Þórðarsyni eins og hann birtist í Bréfi til Láru. Vikið verður að deilum Þórbergs við þjóna kirkjunnar sem spruttu upp í kjölfar útkomu bókarinnar og rætt hvernig þær deilur má skoða sem valdabaráttu þar sem íslensk menning er viðfangið. Einnig verður vikið að því hvernig spámannshlutverk Þórbergs er ein fjölmargra birtingarmynda sjálfsins sem hann sviðsetur í skrifum sínum og hvernig sú sérstaka mynd hefur átt gildan þátt í myndun goðsagna um þennan höfund, til goðs og ills.

Sveinn Valgeirsson dómkirkjuprestur: Afstaðan til „ríkisvaldsins“ í nokkrum nýjatestamentistextum

Kristinn maður hefur alltaf, að verulegu leyti, sótt sjálfskilning  og hugmyndir um stað sinn í heimi og samfélagi til Ritningarninnar. Spenna var áberandi milli hinna kristnu og rómverska ríkisvaldsins og vissulega var freistandi fyrir hina kristnu að veifa frösum í þá veru að framar bæri að hlýða Guði en mönnum en slík nálgun var samt ekki vandkvæðalaus.

Í erindinu verður fjallað þessa spennu sem kristnir einstaklingar og samfélög bjuggu við, væntingar þeirra um samfélag og hvernig einríkishugmyndir eiga við þessa væntingar. En sérílagi verða skoðaðir þeir þrír textar í Nýja testamentinu sem dr. Sigurjón Árni leggur til grundvallar hugmyndum varðandi tveggjaríkjakenninguna, sem og umfjöllun hans um guðsríkið/himnaríki. Þá verður mat lagt á niðurstöður hans í þeim efnum.