Loftlagsganga 21. september

Á sunnudaginn kemur, þann 21. september, verður gengin Loftslagsganga í Reykjavík. Þar munu koma saman félagasamtök um náttúruvernd. Sams konar göngur fara fram í borgum víða um heim. Tilefnið er fundur leiðtoga heims um loftslagsbreytingar sem fer fram í New York síðar í mánuðinum.

Agnes biskup fékk erindi frá undirbúningshópi göngunnar með beiðni um að þjóðkirkjan vekti athygli á málefninu og styddi það og ósk um að prestar nýttu tækifærið þennan dag til að minnast loftslagsbreytinga í ræðum sínum.  Þar segir meðal annars:

„Mikilvægt er að trúfélög, frjáls félagasamtök, fyrirtæki, sveitarfélög og samtök atvinnulífsins og almenningur leggi sitt að mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. […]

Því förum við þess á leit að þjóðkirkjan styðji og taki þátt í aðgerum okkar þann 21. september n.k. Ennfremur, þann dag, gætu prestar um allt land minnst loftslagsbreytinga í ræðum sínum.“