Ályktanir frá héraðsfundi

Á Héraðsfundi Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, sem haldinn var í Grafarvogskirkju 22. maí 2013, voru samþykktar eftirfarandi ályktanir:

Ályktun
Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, haldinn í Grafarvogskirkju 22. maí 2013 hafnar framkominni tillögu í 5. máli kirkjuþings 2012, um sameiningu prófastsdæmanna á höfuðborgarsvæðinu. Með henni er, án sannfærandi rökstuðnings og nokkurrar athugunar á þjónustuþörf, höggvið á rótgrónar samstarfseiningar og búin til tvö mjög stór prófastsdæmi, sem verða þung í vöfum og erfiðar samstarfseiningar. Ekki er heldur, að dómi fundarins, hægt að leiða nein rök fyrir því að þessi sameining leiði til sparnaðar.

Ályktun
Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, haldinn í Grafarvogskirkju 22. maí 2013 telur að þær tillögur sem fram koma í 41. máli kirkjuþings 2012 varðandi sameiningu prestakalla, séu um margt vanreifaðar og þurfi því nánari skoðunar við. Í því sambandi þurfi sérstaklega að huga betur að starfsréttindum og starfsöryggi presta.

Ályktun
Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, haldinn í Grafarvogskirkju 22. maí. 2013, hafnar öllum framkomnum hugmyndum um fækkun prestsembætta á suðvesturhorni landsins enda eru þær alls ekki í samræmi við þá prestsþjónustu sem kallað er eftir og Þjóðkirkjan hefur sett sér að markmiði að halda uppi.
Í þessu samhengi telur héraðsfundur einnig, að nauðsynlegt sé að auglýsa prestsembætti strax og þau losna, enda með öllu ótækt að tilviljun ráði því, að fjölmennustu prestaköllum landsins, sem flest eru á þessu svæði, sé um lengri tíma jafnvel aðeins þjónað af einum presti eins og dæmi eru um að undanförnu.

Ályktun
Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, haldinn í Grafarvogskirkju 22. maí, 2013 beinir því til innanríkisráðherra, fjármálaráðherra og fjárlaganefndar Alþingis að upphæð sóknargjaldsins fyrir árið 2014 verði leiðrétt í samræmi við tillögur nefndar innanríkisráðherra, sem falið var að meta áhrif niðurskurðar sóknargjaldsins á starfsemi Þjóðkirkjunnar og skilaði niðurstöðum sínum vorið 2012.
Fundurinn krefst þess, að mismunun sú sem fram kemur í skýrslunni verði leiðrétt og lögum um sóknargjald síðan fylgt að öllu leyti.

Greinargerð:
Niðurstaða nefndar innanríkisráðherra er mjög skýr um það, að sóknargjaldið hafi verið skorið niður langt umfram þann niðurskurð sem aðrir aðilar hafa mátt þola vegna efnahagshrunsins. Kemur þannig fram í gögnum þeim sem nefndin hefur aflað, að niðurskurður á þessum tekjum trúfélaganna er tvöfalt meiri, en meðaltal þess niðurskurðar sem aðrir aðilar sem heyra undir fjárlög, hafa mátt sæta. Er trúfélögunum því í ár ætlað að reka starfsemi sína fyrir krónutölu sem er hin sama og var árið 2006 eða fyrir 7 árum. Á það skal bent, að á þessum tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 61,5% og þá um leið allur tilkostnaður og sum lán raunar miklu meira. Þarf því varla að undra þótt víða stefni í þrot eins og leitt er í ljós í umræddri skýrslu.
Komið hefur fram bæði í skýrslunni og í ýmsum ummælum ráðamanna, að mistök hafi átt sér stað varðandi þessa gríðarlegu skerðingu, þar sem láðst hafi að verðbæta sóknargjaldið með sama hætti og gert var með framlög til þeirra stofnanna sem eru á fjárlögum. Því hafi verið brotið á trúfélögunum og jafnræðisreglan ekki virt.