Leikmannaskóli Þjóðkirkjunnar

Komið þið sæl.
Starfs- og leikmannaskóli þjóðkirkjunnar býður upp á fjölbreytta dagskrá í maí.

Fyrst er að nefna málþingið: Þjónandi kirkja – félagsleg ábyrgð í samfélaginu. Það verður haldið í samvinnu við kærleiksþjónustusvið þjóðkirkjunnar fimmtudaginn 2. maí kl. 17-20.30 í Digraneskirkju í Kópavogi. Í framhaldi af því verður boðið til umræðu- og fræðslukvölds um kærleiksþjónustuna þar sem þátttakendum verður afhent ritið Þjónusta í síbreytilegu samhengi: að umbreyta, sætta og efla. Fræðslukvöldið sem er í umsjá Magneu Sverrisdóttur, djákna, verður haldið í kórkjallara Hallgrímskirkju þriðjudagskvöldið 14. maí kl. 18-21.

Námskeiðið Kristið líf og vitnisburður hefur farið víða um heim sem undirbúningur undir viðburð á vegum Billy Graham Evangelistic Association sem nefnist Hátíð vonar og verður hér á landi síðustu helgina í september. Námskeiðið hefur verið þýtt og aðlagað íslenskum aðstæðum og er mjög gott tækifæri til að styrkja trú sína og efla sig sem talsmann kristinnar trúar. Starfs- og leikmannaskólinn mun í samstarfi við Hátíð vonar (sjá nánar á www.hatidvonar.is) bjóða til slíks námskeiðs í Bústaðakirkju fimmtudagskvöldin 16., 23. og 30. maí.

Þá er að geta opins fræðsluþings um fræðslumál þjóðkirkjunnar sem öllu áhugafólki um kristna trú og fræðslu er boðið að sækja. Fræðsluþingið verður í Seljakirkju fimmtudaginn 23. maí kl. 17-22.

Þingin og námskeiðin eru þátttakendum að kostnaðarlausu en skráning er æskileg þar sem boðið verður upp á léttar veitingar. Sem fyrr er það Kristín Arnardóttir á biskupsstofu sem tekur við skráningum í síma 528 4000 og á netfangið kristin.arnardottir@kirkjan.is.

Gaman væri að sjá ykkur sem flest á þessum viðburðum og ljúka þannig góðum vetri með glæsibrag!

Sumarkveðjur,
María Ágústsdóttir
verkefnisstjóri á biskupsstofu