Táknfræði tímans vor 2019

Táknfræði tímans vor 2019

Guðfræði kirkjuársins. Langar þig að fræðast um það inntak sem kristin trú ljær tímanum.

Dr. dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson héraðsprestur fjallar um guðfræðina og biblíulegar skírskotanir sem kirkjuárið byggir á.

Farið verður í nokkrar lykilspurningar: Hvaða táknheimur birta hátíðir og sunnudagar kirkjuársins? Hvaða guðfræði er á bak við kirkjuárið? Hvaða stef Biblíunnar ákvarða árstíðaskiptingar kirkjuársins? Hvað er vitringarnir að flækjast þetta á þrettándanum? Af hverju heita sunnudagarnir í níuviknaföstu svona einkennilegum nöfnum? Fjallað verður sérstaklega um þá biblíutexta sem helst hafa mótað kirkjuárið bæði í sögu og samtíma. Þar mætti nefna frásöguna um vitringana, ummyndunarfrásögnina, um kross og upprisu Jesú Krists o.s.frv.

Hér er á ferðinni spennandi námskeið þar sem leitast er við að svara spurningum þeirra sem vilja vita meira.

Um kennarann: Dr. dr. Sigurjón Árni er einn fremsti fræðimaður íslendinga í guðfræði.  Hann starfar sem héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og leiðir þar predikunarsamfélag presta.  Hann hefur kennt guðfræði bæði við Háskóla Íslands og einnig við Háskólann í Kiel í Þýskalandi.  Sigurjón hefur einnig gefið út fjölda bóka um guðfræði og er án vafa afkastamesti guðfræðihöfundur landsins.

Á námskeiðinu verður boðið upp á fyrirlestur og síðan verða umræður um efnið yfir kaffibolla þar sem þátttakendur eru hvattir til að leggja til umræðunnar.

Staður og stund. Fyrirlestrarnir fara fram í Breiðholtskirkju og eru á fimmtudagskvöldum frá 20-22. Alls eru um 10 skipti að ræða. 17. janúar til 28. Mars. Hægt er að sækja stök fræðslukvöld. Aðgangur  er ókeypis og allir velkomnir.  Skráning á námskeiðið er í gegnum netfangið skraning@kirkjan.is og profaust@centrum.is Einnig er hægt að hringja í síma 567-4810